Óánægju gætir með stuttan greiðslufrest í Vaðlaheiðargöngum

Talsverðrar óánægju gætir á meðal vegfarenda sem fara um Vaðlaheiðargöng hversu stuttur tími er gefinn til greiðslu fyrir staka ferð í gegnum göngin. Frá því að gjaldtaka hófst í Vaðlaheiðargöngum 2. janúar sl. hefur vegfarendum staðið til boða að kaupa staka ferð í gegnum göngin á kr. 1.500 á veggjald.is eða tunnel.is eða með símaappi allt að þremur tímum áður eða þremur tímum eftir að ekið er í gegnum göngin. Að öðrum kosti hefur veggjaldið verið innheimt af umráðamanni ökutækis að viðbættu 1.000 kr. álagi.

Fram kemur á heimasíðu Vaðlaheiðarganga að eftir sem áður býðst vegfarendum að kaupa stakar ferðir en sú breyting hefur verið gerð að vegfarendum er það í sjálfsvald sett hversu löngu áður en ferð er áætluð í gegnum göngin þeir skrá ökutæki sín inn á veggjald.is. Sem fyrr skal veggjaldið þó hafa verið greitt eigi síðar en þremur tímum eftir að ferðin er farin. Í þessu sambandi skal undirstrikað að þó svo að ökutæki hafi verið skráð á veggjald.is innheimtist veggjaldið ekki nema að ökutækinu sé ekið í gegnum göngin.

Vegfarendum sem sett sig hafa í samband við FÍB finnst þriggja tíma greiðslufrestur geta í mörgum tilfellum verið ansi knappur. Eins sé merkingum og öðrum upplýsingum ábótavant en þegar komið er að göngum kvarta ökumenn sáran yfir lélegum upplýsingum um göngin, gjaldtökuna og um næstu skref almennt á ferðum sínum.

Fram hefur komið í umfjöllun FÍB að umferðin um Vaðlaheiðargöng í júní var töluvert undir væntingum og eru tekjur það sem af er sumrinu um 35% minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í áætlunum var gert ráð fyrir að um 90% af umferðinni myndu nota göngin en staðreyndin er sú að hlutfallið er um 70%.

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir í samtali við FÍB að þriggja tíma greiðslufresturinn sé að hluta til unninn í samvinnu með bílaleigunum. Leigurnar hér á Akureyri geta verið að leigja hátt í annað hundruð bíla á dag þegar skemmtiferðaskipin hafa þar viðkomu. Leigurnar vilja síður þurfa að lenda í því að ferðafólkið skili bílnum, fari um borð í skip, og er þar með farið án þess að greiða.

Aðspurður hvort komi til greina að lengja í greiðslufrestinum segir Valgeir að alltaf sé verið að endurskoða hlutina og það geti allt eins komið til greina, þá jafnvel upp í sólarhring.

,,Það þarf að leysa þetta þannig að allir séu sáttir. Við þurfum að vinna þetta með bílaleigunum en það myndi henta þeim illa ef greiðslufresturinn yrði lengdur því þær eru að leiga bíla á hverjum degi. Lengri greiðslufrestur kæmi sér ekki vel fyrir bílaleigurnar. Fyrir okkur skiptir það engu máli því við eru ekki að fá tekjurnar fyrr en greiðslukortafyrirtækin gera upp greiðslurnar. Fyrir Íslendinga mælumst við fyrir að allir skrái bíla sína áður en þeir leggja af stað í ferðalagið af því að skráningin kostar ekkert. Vegfarendur eru ekki rukkaðir nema þeir farið göngin. Aftur á móti ef bíllinn fer í gegn er greiðslan framkvæmd,“ segir Valgeir Bergmann.

Aðspurður hvort það komi til greina að lækka gjaldið í göngin segir Valgeir að stutt sé síðan að verðskráin breyttist. Það er ekki á döfinni akkúrat núna.

,,Við eru ekki komnir með heilt rekstrarár til að meta stöðuna. Það á eftir að ljúka framkvæmdum sem lúta að frágangi. Þá á eftir að mála miðlínu, merkja betur útskot ásamt nokkrum öðrum liðum. Það á eftir að merkja Vaðlaheiðargöngin inn á kortin en Vegagerðin er ekki með göngin inn á neinum kortum hjá sér. Síðan er markmiðið að fara í greiningu á umferðinni sem fer yfir Víkurskarðið. Það gæti verið af mörgum toga, t.d. þess að njóta útsýnisins og öðrum kann að finnast gjaldið í göngin of mikið. Við þurfum að skoða öll þessi mál í heild sinni og við skoðum allar ábendingar sem koma upp á borð til okkar,“ segir Valgeir Bergmann.