Óánægju gætir með tafir í forskráningum ökutækja hjá Samöngustofu

Samgöngustofa hefur ekki haft undan við að forskrá öll þau ökutæki sem flutt eru inn til landsins og eru dæmi um allt að mánaðarbið eftir skráningu ökutækja. Innflutningur hefur aukist um tugi prósenta á síðustu árum.

Óánægja er meðal innflytjenda notaðra og nýrra bíla, bæði fyrirtækja og einstaklinga, með tafir í forskráningum hjá Samgöngustofu. Þetta er það m.a. sem kemur fram í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Í blaðinu kemur einnig fram að þetta hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir innflytjendur bílanna og viðskiptavinir bílaumboðanna hafi ekki mikinn skilning á þessum töfum.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir í samtalinu við Morgunblaðið að áður hefði Umferðastofa haft með skráningarnar að gera með góðum árangri en eftir að Samöngustofa hefði tekið þær yfir hefði ekkert gengið.

Samgöngustofa ber við fjárskorti og ekki hafa verið til fjárheimildir til að bæta við mannafla. Málið hefur borist inn á borð Jón Gunnarsson, samgöngumálaráðherra, og verður fundað með Bílagreinasambandinu og Samgöngustofu í þessari viku til að leita lausna og finna farsæla lausn.

Í Morgunblaðinu er einnig haft eftir Skúla K. Skúlasyni hjá BL að aukakostnaður bílaumboðanna vegna þessa skipti milljónum króna.