Óboðleg hraðferð vegtolla gegnum Alþingi

FÍB mótmælir yfirstandandi hraðferð vegtolla í gegnum Alþingi. Þessum nýju sköttum á bíla og umferð á bersýnilega að þröngva í gegn á sem stystum tíma til að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu. Þessi vinnubrögð eru fullkomlega óboðleg.

FÍB leggst alfarið gegn vegtollum vegna þess að þar er verið að leggja nýja skatta ofan á háa skatta sem bíleigendur og umferð bera nú þegar. Vegtollar eru sagðir eiga að fara til aukinna vegaframkvæmda. Núverandi skattar á bíleigendur eru aðeins notaðir að hluta í þeim tilgangi. Af um 80 milljarða króna sköttum sem áætlað er að bílar og umferð skili á næsta ári eiga 29 milljarðar að fara til vegaframkvæmda og vegaþjónustu. Rúmlega 50 milljarðar fara í önnur ríkisútgjöld. Fram hefur komið að vegatollar eigi að skila 10 milljörðum króna til viðbótar á ári. Bílaskattar verða þá komnir í 90 milljarða króna.

Vegtollar mismuna vegfarendum eftir búsetu og ferðatilgangi og leggjast þyngst á þá sem hafa minna aflögu. Námsmaðurinn á sparneytna smábílnum borgar það sama og eigandi 30 milljón króna lúxusjeppans.

Sporin hræða þegar stjórnmálamenn kynna nýja skatta til að fjármagna tilteknar framkvæmdir. Bifreiðagjald var lagt á til bráðabirgða fyrir 30 árum til að staga í fjárlagagat. Gjaldið er ennþá innheimt og gefur hátt i 8 milljarða króna í tekjur í ríkissjóð.

Tollheimtumenn á Alþingi hafa ekkert upplýst um kostnað af þessari innheimtu. Algengt hlutfall erlendis er 15%. Varla finnst dýrari skattheimtuaðferð. Á það má benda að af veggjöldum Hvalfjarðarganga fóru 500 milljónir króna á ári í annað en sjálf göngin. Þar á meðal var kostnaður við yfirstjórn og skrifstofu, tekjuskattur, arður til eigenda og virðisaukaskattur.

Málsvarar skattheimtunnar hafa nefnt að þeir sem fari gegnum tollheimtuhliðin vegna daglegrar vinnu fái ríflegan afslátt. Upphæðin gæti verið 140 krónur. Ljóst er að sú upphæð dugar hvorki fyrir gjaldtökukostnaði né bankakostnaði. Verið er að blekkja almenning.

Ljóst er að þorri íbúa landsins er á móti vegtollum. Árið 2011 áformuðu stjórnvöld vegtolla á Suðurlandsvegi. Á einni viku safnaði FÍB mótmælum 41 þúsund einstaklinga gegn þessum áformum. Þeim var komið á framfæri við ráðherra samgöngumála og í kjölfarið var fallið frá hugmyndinni.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra fullyrti í viðtali við RÚV að allir gestir sem komu fyrir samgöngu- og umhverfisnefnd hafi verið hlynntir vegtollum. Þetta er ekki rétt, fulltrúar FÍB lýstu eindregnum mótmælum við allar hugmyndir um vegtolla.

FÍB mun beita sér harðleg gegn öllum hugmyndum þingmanna um auknar álögur á bíla og umferð.

Hér má nálgast umsögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019- 2033 og samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023.