Oddný Harðardóttir greiddi atkvæði gegn veggjaldafrumvarpi samgönguráðherra

Samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir voru samþykkt sem lög frá Alþingi 29. júní sl. Alls greiddu 55.6% þingmanna atkvæði með frumvarpinu, 30,2% greiddu ekki atkvæði, 8 þingmenn voru fjarverandi en aðeins einn þingmaður, Oddný Harðardóttir 6. þingmaður Suðurkjördæmis, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.

Lögin marka tímamót þar sem meirihluti kjörinna fulltrúa á Alþingi samþykkir með atkvæði sínu einkavæðingu þjóðvega landsins í áföngum. Stórauknar álögur munu á næstu árum leggjast á almenna vegfarendur.

Oddný segir á heimasíðu sinni að vegakerfi landsins hafi lengi verið vanrækt. Strax eftir síðasta hrun voru ríkisútgjöld skorin niður á öllum sviðum.  Verulega var dregið úr framlögum til nýframkvæmda og viðhalds í vegagerð.  Oddný segir að á þessum tíma hafi enginn viljað lána íslenska ríkinu til framkvæmda nema hugsanlega á okurvöxtum. Þegar ástandið skánaði var tekin pólitísk ákvörðun um að svelta vegakerfið áfram.  Þess vegna erum við í vondri stöðu í dag segir Oddný. 

 

,,Ég vil vegabætur og aukið umferðaröryggi og tel það vera nauðsynlegan hluta velferðarinnar og aðlaðandi búsetuskilyrða um allt land. Og fyrir þetta eigum við að greiða úr okkar sameiginlega sjóði, ríkissjóði, í stað þess að veiða krónurnar upp úr veskjum íbúa á tilteknum svæðum, sem flestir eru á lágum launum eða hafa meðaltekjur. Við eigum að láta þá greiða sem geta en ekki fara að ráðum hægrimanna um notendagjöld í stað tekjutengdra skatta. Innviðaskuldin við samfélagið frá bankahruni hefur ekki verið greidd.” 

Nánar hér:  https://www.dfs.is/2020/07/21/eg-segi-nei-2/