Ódýrasta bensínið á Akranesi

The image “http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.


Ekki hafði frétt okkar um 8,6% hækkun álagningar á bílaeldsneyti á árinu 2006 lengi verið hér á fréttavef FÍB en olíufélögin brugðust við og lækkuðu útsöluverðið á bensíni. Athygli vekur að ekki er enn búið að lækka útsöluverð dísilolíunnar sem hefur ekkert síður lækkað í verði á heimsmarkaði nú á nýja árinu.

Heimsmarkaðsverð á eldsneytinu hefur farið hríðlækkandi að undanförnu án þess að olíufélögin hafi séð ástæðu til að leyfa viðskiptavinum sínu að njóta þess að ráði. En í morgun varð á þessu kærkomin breyting. Það mun hafa verið Olíufélagið Esso sem reið á vaðið í morgun og lækkaði verðið og strax á eftir fylgdu hin félögin í kjölfarið.

Algengasta þjónustuverð á bensíni er eftir verðbreytinguna 116.50 krónur á lítra og 111.50 í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð. Bensínverðið hjá Orkunni er 109.8 krónur á lítra, 109,9 hjá ÓB og 110.00 hjá Atlantsolíu og Ego.

Algengasta þjónustuverðið á dísilolíu er 118,50 krónur á lítra og sjálfsafgreiðsluverðið á þjónustustöðvunum er 112.50. Á sjálfsafgreiðslustöðvunum er dísilolían seld á 111.90 til 112 krónur á lítra.

Í frétt okkar í gær sagði að ódýrasta bensínið væri að fá hjá Esso á Geirsgötu í miðbæ Reykjavíkur. Ábending barst frá starfsmanni eins olíufélagsins í morgun um að enn ódýrara bensín hefði verið og væri að fá á bensínstöð Skeljungs við Skógarhlíð í Reykjavík og reyndist það rétt. Hjá Shell í Skógarhlíðinni kostar lítrinn af bensíni nú 107 krónur og dísillítrinn 109 krónur. Geirsgatan hjá Esso er með bensínið á kr. 107.50 krónur og dísilolíuna á kr. 109.50.

En nánari athugun leiddi í ljós að enn ódýrara bensín er að finna hjá ÓB á Akranesi; kr. 104,40 kostar bensínlítrinn þar og dísilolíulítrinn kostar kr. 106,40. Olís og Esso á Akranesi bjóða næst hagstæðustu verðin þessa stundina, kr. 105.40 fyrir bensínið og kr. 107,5 fyrir dísilolíuna.

Loks fengum við ábendingu frá lesanda fréttavefs FÍB að nokkurskonar „mini“ -verðstríð hefði átt sér stað undanfarið „upphéruðum Kópavogs,“ eins og lesandinn orðar það. Vegna tilkomu sjálfsafgreiðslustöðvar Atlantsolíu hafi EGO gefið þriggja króna afslátt af bæði bensín- og olíulítranum á stöð sinni við Salarveg. Þar hafi því verðið verið kr. 108,20 fyrir bensín og 109,00 fyrir dísilolíu síðastliðnar 6 – 8 vikur. Fram að því hafi auk þess einatt verið hægt að fá bensín og dísilolíu með allt að fjögurra króna afslætti á lítrann ýmist milli kl. 16 og 18 (á Salarvegi) eða milli kl. 18 og 24 (við Reykjanesbraut). Þetta þýði að í talsvert langan tíma hafa íbúar upphéraða Kópavogs þurft að greiða vel innan við kr. 110 á lítrann af bensíni með því að hafa smá fyrirhyggju.