Ófærðin í Danmörku

Miklir sjóar og talsverð ófærð hefur verið á vegum á Norðurlöndunum og norðanverðri Evrópu undanfarnar vikur. Samgöngur hafa gengið úr skorðum og bílar setið fastir á vegum og utan þeirra, m.a. í Danmörku. En þrátt fyrir vonda færð þar víða er áætlað að tæpur fjórðungur bíla í umferð sé á sumarhjólbörðum.

Fréttavefur FDM, systurfélags FÍB í Danmörku greinir frá þessu. Þar segir að Þeim bíleigendum sem skipti yfir á vetrarhjólbarða á haustin hafi fjölgað stöðugt undanfarin ár og hafi reyndar aldrei áður verið jafn margir, enda orðið langt síðan að færð á vegum hefur verið jafn erfið og í vetur. Mikil breyting hafi orðið á í þessu efni síðan 2006 en þá ók um helmingur danska bílaflotans á sumardekkjunum árið um kring.

En þrátt fyrir að færðin hafi verið og sé enn óvenju erfið í Danmörku nú, eru um það bil 23 prósent bíla í umferð nú, enn á sumardekkjunum þrátt fyrir talsverðan áróður fyrir því að bílar skuli vera með hjólbarða og búnað sem hæfi aðstæðum hverju sinni.

En Danir eru misduglegir við að skipta yfir á vetrardekkin. Bíleigendur á Jótlandi og Fjóni eru greinilega samviskusamari því að þar eru 80 prósent bíla á vetrarhjólbörðum.

Í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi er ekki frekar en á Íslandi beinlínis bannað að aka á sumardekkjum að vetrarlagi heldur segja lög og reglur að bílar skuli vera með þann „fótabúnað“ sem hæfi vetraraðstæðum. Það er þannig ekki beinlínis ólöglegt að aka um á sumardekkjunum í vetrarfæri. Ef hins vegar verður óhapp sem beinlínis verður rakið til þess að bíll var vanbúinn til aksturs í vetrarfærinu getur það bakað sumardekkjaökumanninum bótaskyldu. FDM hvetur því félagsmenn sína, eins og FÍB gerir hér heima, til að aka ekki í vetrarfæri nema bíllinn sé til þess búinn.

Grip vetrarhjólbarðanna er miklu betra og öruggara í vetrarfæri þegar krap, snjór eða ís er á vegum. Bílar á vetrardekkjum eru því miklu líklegri að komast leiðar sinnar í vetrarfærinu meðan sumardekkjabílarnir komast miklu síður og verða því til trafala og vandræða.