Öflug afturganga

Enn og aftur leggjast Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins sameiginlega í víking fyrir hugmyndinni um einkavæðingu vegakerfisins og vegatolla á vegfarendur. Að þessu sinni er það greinileg ætlun forsvarsmanna þessara samtaka launafólks og atvinnurekenda að taka þorra launafólks í gíslingu með því að sprengja nýgerða kjarasamninga í loft upp, fari stjórnvöld ekki að vilja þeirra. Og hvað vilja svo mennirnir eiginlega?

Jú, að stofna hlutafélög sem leggjast í stórfelldar lántökur á ábyrgð ríkisins. Fénu eiga svo þessi hlutafélög að verja í vegaframkvæmdir á suðvesturhorni landsins. Þegar nýju vegirnir svo verða tilbúnir er ætlunin að velta kostnaðinum beint á herðar notenda þeirra með því að rukka þá um veggjöld í ofanálag við þær ofurálögur sem þegar eru lagðar á umferð og samgöngur á Íslandi.

Að sjálft Alþýðusambandið - heildarsamtök íslensks launafólks skuli reka þetta mál er furðulegt í því ljósi að í upphafi ársins skrifuðu 41.500 kosningabærir Íslendingar undir mótmæli gegn  þessum hugmyndum. Ekki er að efa að talsverður hluti þessa hóps eru meðlimir stéttarfélaga innan ASÍ sem nú virðist umhugað um að leggja sérskatta á félaga sína eftir því hvar þeir búa og stunda vinnu. Það má segja innanríkisráðherra til hróss nú að hann hikar við að samþykkja delluna og fara þannig gegn yfirlýstum vilja um fimmtungs þjóðarinnar.

FÍB hafði frumkvæði að undirskriftasöfnuninni fyrrnefndu og þessi mikli fjöldi undirskrifta safnaðist á einungir einni viku sem er algert einsdæmi. Það voru ekki síst íbúar landsvæða sem fyrirhugaðir vegatollar kæmu einna þyngst niður á, sem brugðust harðast við. Þannig skrifuðu 32% kosningabærra manna á Selfossi undir mótmælin, 42% í Hveragerði, 31% í Reykjanesbæ, 28% í Grindavík, 25% í Mosfellsbæ, 38% á Kjalarnesi og 24% á Akranesi. Í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið að jafnaði tæplega 20% - og allur þessi fjöldi á aðeins einni viku.

Að þessi vegtolladraugur skuli nú enn uppvakinn sýnir eftilvill hversu þessir fulltrúar launþega og atvinnurekenda virðast vera illa jarðtengdir og lítt skynja vilja almennings. Hvernig dytti þeim annars í hug að vekja máls á vegatollamálinu enn á ný?

FÍB vill enn og aftur ítreka andstöðu sína við þessar hugmyndir. Helstu rök félagsins eru eftirfarandi:

FÍB bendir á að á þessu ári muni bíleigendur borga ríkinu 47 milljarða króna fyrir að fá að komast leiðar sinnar. Aðeins brot af þeirri upphæð rennur til vegakerfisins. Með vegatollum yrði gengið lengra í skattheimtu á ferðir fólks en áður hefur þekkst.

FÍB bendir á að með vegatollum sé vikið með róttækum hætti frá því að nota skatta á bifreiðaeldsneyti til að fjármagna framkvæmdir og viðhald í vegakerfinu. Um þá aðferð hefur ríkt sátt í þjóðfélaginu.

FÍB bendir á niðurstöður færustu sérfræðinga í umferðarmálum um að næstu áratugi nægi góðir 2+1 vegir til að anna umferð til og frá frá borginni. Síkir vegir eru jafn öruggir og þeir þrefalt dýrari 2+2 vegir sem eru á teikniborði stjórnvalda. 2+1 vegir munu duga fram til þess dags að íbúar á Árborgarsvæðinu verða 500 þúsund og Reykjavíkur 1,5 milljónir. Með því að láta af „2007”-bólgnum hugmyndum um lúxus hraðbrautir með mislægum gatnamótum sparast stórfé og hin meinta réttlæting fyrir vegatollum gufar upp.

Mótmælin sýna ljóslega hug landsmanna til hinna lítt geðfelldu hugmynda talsmanna vegatolla að ætla að mismuna íbúum landsins með sérstakri skattheimtu eftir búsetu. Hún sýnir líka að landsmenn eru andsnúnir því að taka fáeina mikilvægustu kafla hins íslenska þjóðvegakerfis úr sameiginlegri eigu allra landsmanna og færa þá á forræði hlutafélaga sem hafa eigin arð að leiðarljósi.

Á það má benda að hlutfall innheimtukostnaðar vegatolla af 30 milljarða króna framkvæmdahugmyndum stjórnvalda verður ekki undir 15%. Það gerir 4,5 milljarða króna, sem slagar hátt upp í að dekka kostnaðinn við 2+1 veg milli Reykjavíkur og Selfoss.