Ofsaakstur unglings í Ártúnsbrekku

http://www.fib.is/myndir/Artunsbrekkuslys.jpg
Alvarlegt slys í Ártúnsbrekku. (ekki sama slysið og fjallað er um í meðf. frétt).

Síðdegis laugardaginn 23. september sl, böðlaðist ungur drengur á aflmikilli og hraðskreiðri Honda bifreið til vesturs eftir Vesturlandsvegi á mjög miklum hraða. Miðað við ummerki á staðnum má gera ráð fyrir því að hraðinn á bílnum hafi verið öðru hvoru megin við 200 km á klst.

Drengurinn ók á ofsahraða í nokkuð þéttri umferð á akreininni lengst til vinstri og sér skyndilega framundan sér hvar lítill jeppi skiptir um akrein og inn á þá sem hann ekur. Hraðinn er það ofboðslegaur að þegar drengurinn stappar á hemlana, marka dekkin á bíl hans 77 metra hemlaför þar til hann dregur jeppann uppi og skellur aftan á hann. Eftir áreksturinn við jeppann hélt Hondan áfram þannig að frá því hemlaför hennar byrja og þar til hún loks stöðvast eru 208 metrar hvorki meira né minna.

Við áreksturinn kastast jeppinn áfram og til vinstri en svo vel vill til að einmitt á þessum stað er komið vegrið sem aðskilur gagnstæðar akstursstefnur. Jeppinn kastaðist því ekki inn í laugardagsumferðina út úr borginni sem hefði gert þetta slys enn skelfilegra, heldur á vegriðið og þaðan til hægri yfir tvær akreinar og út á slétta vegöxl við hægri brún akbrautarinnar þar sem ávalur hár graskantur tók við. Þar stöðvaðist jeppinn loks.

FÍB-fréttir spurðu Sigurð Helgason upplýsingafulltrúa Umferðarstofu hver væru viðurlög við því að aka svona og hverskonar dóms má drengurinn á Hondunni vænta fyrir þetta „afrek“ sitt? Sigurður sagði að sektir fyrir hraðakstursbrot væru lagðar á brotlega ökumenn eftir nokkurskonar „löggiltum“ skala en þessi skali næði ekki nema upp í 170 km hraða og fyrir að aka á þeim hraða væru viðurlögin 70 þúsund króna sekt og þriggja mánaða ökuleyfissvipting. Hvernig tekið verður á málum þar sem hraðinn hefur sannanlega verið meiri en 170 km á klst. sé því orðið lögfræðilegt álitamál og niðurstaðan alls óviss.

Aðspurður um hvort hægt væri að gera bíla ofsaakstursfólks upptæka sagði Sigurður að hann þekkti engin dæmi slíks. Hins vegar væri hægt að leggja hald á bíla fólks sem trassar að greiða stöðumælasektir og sinnir aldrei innheimtukröfum . Slík mál gæti endað með því að bíllin er seldur á opinberu uppboði.

Akstur af þessu tagi gæti haft í för með sér miklu alvarlegri afleiðingar en þarna urðu, en að ekki fór verr má þakka tilviljunum og því að einmitt á þeim kafla þar sem atburðirnir gerðust var búið að setja upp vegrið til að aðskilja umferð til gagnstæðra átta og ágætur ávalur kantur tekur við bílum sem fara útaf veginum til hægri. Bæði skömmu ofar og neðar er hvorugu til að dreifa og hefði aftanákeyrslan átt sér stað með sama hætti hefði slysið að öllum líkindum orðið miklu miklu alvarlegra.


Gæsaveiði eða ofsaakstur

Þegar viðurlögin 70 þúsund króna sekt og ökuleyfissvipting í þrjá mánuði fyrir að aka á 170 kílómetra hraða eru skoðuð í samanburði við ýmis önnur brot sem fólk er staðið að þá kemur ýmislegt sérkennilegt í ljós: Dæmi um slíkt er nýfallinn dómur gegn úmlega þrítugum mann sem dæmdur var fyrir brot gegn veiðilögum.
Brot mannsins var það að hann skaut sér til matar fimm friðaðar gæsir og eina heiðargæs í Hornafirði í lok aprílmánaðar 2005. Fyrir þetta var hann dæmdur til að greiða – eins og ofsaakstursmaður sem gómaður er á 170 - 70 þúsund króna sekt. En það er tekið harðar á skotmanninum sem aldrei setti neinn samborgara sinna í lífshættu við athæfi sitt og aldrei ógnaði lífi og limum fjölda saklauss og óviðkomandi fólks eins og ofsaakstursmaðurinn fyrrnefndi. Skotmaðurinn var nefnilega sviptur skotvopnaleyfi – ekki í þrjá mánuði, heldur tólf, en ekki nóg með það. Vopnið sem hann skaut gæsirnar með; Mossberg 500 haglabyssa var gerð upptæk og sömuleiðis Winchester 70 XTR-riffil sem ekki einu sinni kom við sögu í veiðilagamálinu.


Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB fór fljótlega eftir atvikið í Ártúnsbrekkunni sl. laugardag á EuroRAP bílnum til þess að skoða vettvanginn. EuroRAP bíllinn er notaður til þess að meta öryggi vega og hann er búinn mjög fullkomnum og nákvæmum búnaði til að meta og mæla hraða og vegalengdir. Ólafur segir þannig frá niðurstöðum sínum:

Ég fylgdist með fréttum og umræðum um þennan ofsaakstur í Ártúnsbrekku í og fór daginn eftir að hann átti sér stað til að kanna aðstæður. Ég fór á EuroRAP mælingabílnum, sem er með nákvæm mælitæki og mældi förin og önnur verksummerki. Niðurstöðurnar voru eftirfarandi.

Hemlaförin í Ártúnsbrekku eru 180 metrar að lengd. Það eru 77 metrar frá því að þau byrja þar til áreksturinn á sér stað. Eftir það halda hemlaförin áfram. Frá því að hemlaförin enda og þangað sem Hondan stoppar eru 28 metrar í viðbót. Það eru því samtals 208 metrar frá því að hemlaförin byrja og þangað til Hondan stoppar.

Til viðbótar þessu er viðbragðstíminn, frá því að ökumaður Hondunnar sér jeppann og nær að bregðast við. Á svona hraða getur það skipt nokkrum tugum metra til viðbótar, þannig að stöðvunarvegalengin í þessu tilviki er amk. 250 til 300 metrar ásamt hörku árekstri. Heildar stöðvunarvegalengdin án árekstrar gæti því verið um eða yfir 400 metrar, þannig að hraðinn hefur verið gífurlegur.

Jeppinn kastast tugi metra áfram eftir áreksturinn. Hann kastast á vegriðið af miklu afli 40 metrum eftir áreksturinn, slítur upp 4 staura og beygir vegriðið á um 8 metra kafla. Síðan kastast hann yfir allar þrjár akreinarnar til hægri og endar fyrir utan veg í graskantinum 90 metrum eftir að hann lendir á vegriðinu. Samtals kastar Hondan jeppanum 129 metra.

Ég hef mikla reynslu varðandi akstur og umferðarmál eftir að hafa verið viðloðandi þessi mál í fjölda ára, bæði í akstursíþróttum, Umferðarráði, FÍB, FIA og EuroRAP. Ég hef aldrei áður séð annað og eins hvað varðar stöðvunarferil og þá er kappakstur erlendis meðtalinn. Í mínum huga er hér um hreint og klárt tilræði að ræða við okkur hin í umferðinni.

Það er bara tvennt sem kom í veg fyrir að ekki fór miklu verr. Í fyrsta lagi var það einskær heppni og mildi. Í öðru lagi var það sú staðreynd, að þetta átti sér stað á vegarkafla, sem er vel útbúinn. Hér var vegrið í miðjunni, sem kom í veg fyrir að jeppinn kastaðist ekki inn í umferðina á móti og einnig er brekka utanvið veginn sem stöðvaði jeppann.

Það eru einungis 2 ár síðan þetta vegrið var sett upp í kjölfar slyss og eftir samræður mínar og Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, sem lagði fram tillögu í borgarstjórn um uppsetning þess. Þetta vegrið hefur sannað gildi sitt oftar en einusinni, en það vantar samsvarandi upp Ártúnsbrekkuna og reyndar á alla Miklubrautina. Ef þetta hefði átt sér stað svolítið ofar eða neðar í Ártúnsbrekku hefði farið miklu verr, því þar vantar vegrið í miðjuna og einnig er hátt fall frammaf veginum við Elliðaárbrúna sem og við Brimborg og við strætóstöðina.

Ofsaakstur eins og þessi á ekki að sjást. Afleiðingarnar eru skelfilegar eins og þetta ár hefur sannað. Ofaná ofsaaksturinn bætist oftar en ekki sú staðreynd, að bílbelti eru ekki notuð og þetta tvennt er dauðadómur fyrir þá sem þetta gera, svo ekki sé talað um líf og limi okkar hinna. Það er þessvegna sem ég sagði fyrr í sumar að svona ökumenn ætti að meðhöndla eins og hryðjuverkamenn. 150+ er ekkert annað en tilræði við okkur hin. Ég fer ekki ofan af því.

Það var bara heppni og góðar aðstæður núna sem komu í veg fyrir og enn eitt skelfilega slysið núna fyrir saklaust fólk, vegna ofsaaksturs eins. Því miður hefur það ekki verið raunin fyrir alltof marga í ár.


Ólafur Guðmundsson.
http://www.fib.is/myndir/Artunsbr-bremsuf.jpg
Lengst til vinstri sjást hemlaför eftir Honduna sem ná 70 metra að þeim stað þar sem Hondan skall aftan á jeppanum nokkru framan við þar sem blái bíllinn er á myndinni. Atvikin skýrast betur af myndinni hér á eftir.

http://www.fib.is/myndir/Ferilllinn.jpg