Ofurferja til viðbótar við brú

Með vorinu eru fyrirætlanir um að auka verulega ferjusiglingar yfir Kattegat, ekki síst til að tengja betur saman Kaupmannahöfn á Sjálandi og Árósa, stærstu borgina á Jótlandi. Nýja ferjan verður risastór, tvíbyrt og hraðskreið og tekur um 417 fólksbíla í hverri ferð. Frá þessu er sagt á fréttavef FDM, systurfélags FÍB í Danmörku.

Með Stórabeltisbrúnni frá suðvestanverðu Sjálandi yfir á Fjón fækkaði mjög ferjusiglingum milli Sjálands og Fjóns en líka milli Sjálands og Jótlands um Kattegat. En gallinn við Stórabeltisbrúna er sá að hún er talsvert sunnar og því verulega úrleiðis fyrir þá sem fara milli Kaupmannahafnar og Árósa. Fyrst þarf nefnilega að aka langa leið til suðvesturs frá Kaupmannahöfn yfir þvert Sjáland, greiða háan brúartoll og aka síðan yfir Stórabeltisbrúna. Síðan liggur leið yfir þvert Fjón og um Litlabeltisbrúna yfir á Jótland og þaðan langa leið til norðurs til Árósa. Hraðskreið ferja frá Sjálandsodda á Kattegatströnd beint til Árósa mun þannig spara mjög mikinn akstur og eldsneyti og jafnvel tíma.

Nýja ferjan er ein stærsta bílaferja sem um getur. Hún er 113 m löng, tekur sem fyrr segir yfir 400 fólksbíla en auk þess sendibíla og minni vöruflutningabíla, húsbíla, hjólhýsi og allt að sex stórar rútur, allt í einni ferð. Með tilkomu ferjunnar fjórfaldast afkastageta ferjusiglinga um Kattegat frá því sem nú er.

Framkvæmdastjóri ferjufyrirtækisins segir að eftirspurn eftir fari með þeim þremur ferjum sem fyrirtækið hefur rekið undanfarin ár á þessari ferjuleið hafi aukist mjög mikið síðust ár og mánuði. Nýja ferjan muni því koma í góðar þarfir, en hún mun hefja siglingar um miðjan apríl nk. og sigla átta sinnum á dag yfir sundið og enn oftar um helgar. Siglingatíminn milli Árósa og Sjálandsodda verður um 70 mínútur. Um helgar verður siglt milli Sjálandsodda og Ebeltoft norðan við Árósa. Siglingatíminn þar á milli verður 45 mínútur.