Ofursparneytnir Mazda bílar

Bensínvélin hefur undanfarin 100 ár breyst sáralítið. Í grundvallaratriðum er hún sú sama og alltaf. Það sem hefur breyst er að tölvutæknin hefur gert mögulegt að stjórna eldsneytisskömmtuninni í brunahólfin nákvæmar þannig að orkan í eldsneytinu nýtist betur.

En nú eru tæknimenn dálítið að hugsa bensínvélina upp á nýtt og það er smám saman að skila sér í enn betri orkunýtingu þeirra sem þýðir stórum minni eyðslu. Þannig er Fiat kominn með furðu öflugar og ofursparneytnar tveggja strokka bensínvélar og nú er það Mazda í Japan sem kynnir ofursparneytnar bensínvélar. Með sl´kri vél á lítill bíll ekki að eyða nema rúmum þremur lítrum af bensíni á hundraðið. Slík Mazda er þegar komin fram og það án nokkurrar tvinntækni, þ.e. raf- og bensínvélar sem í sameiningu drífa bílinn áfram.

 Verkfræðingar Mazda í Japan hafa nú hannað bensínvélar sem eru miklu háþrýstari en bensínvélar hafa hingað til verið. Þjöppunarhlutfall þessara véla er þannig farið að nálgast þjöppunarhlutfall dísilvéla. Við þær eru settir gírkassar sem halda snúningi vélanna innan bestu hagkvæmnismarka hvert svo sem álagið kann að vera.  En þessutan er lögð áhersla á að hafa bílana sjálfa eins létta og mögulegt er án þess að öryggi fólksins í bílnum sé fyrir borð borið.  En þessa nýju vélar sínar nefna þeir hjá Mazda Skyactiv. Ný gerð af Mazda 2 með Skyactive vél er væntanlegur á Evrópumarkað fyrir mitt næsta ár og bensíneyðsla þessa bíls er sögð verða aldrei munu fara yfir fjóra lítra á hundraðið en verða á bilinu 3-4 lítrar eftir aksturslagi og öðrum aðstæðum.

Hugtakið Skyactiv hjá Mazda verður framvegis notað yfir ofursparneytnar bensínvélar og Skyactive D yfir sambærilegar dísilvélar og viðeigandi handskipta gírkassa sem kallast munu Skyactive MT og eða sjálfskiptingar sem fá heitið Skyactive Drive. Bílarnir sem munu fá þetta heiti verða sérstaklega léttbyggðir og mun það kallast að þeir séu Skyactive Body. Öll þessi „himnavirkni“ verður því einskonar vörumerki Mazda á nýrri ofursparneytinni línu bíla.

Markmiðið hjá Mazda er sagt vera að innleiða smám saman þessar skyactive tækni  í alla bílaframleiðsluna og að hún verði orðin allsráðandi frá og með árinu 2016. Árið 2015 eiga einnig að koma til skjalanna Skyactive rafbílar. Þeir verða ýmist hreinir rafbílar eða rafbílar með bensínrafstöð, svipað og Chevrolet Volt sem kemur á Bandaríkjamarkað á næstu vikum.

Um þetta alltsaman má lesa nánar í fréttatilkynningu Mazda sem er að finna sem PDF skjal hér.