Óháðum bílaverkstæðum gert erfitt fyrir

Ef marka má evrópska úttekt á samkeppnisstöðu almennra óháðra bílaverkstæða samanborið við verkstæði sem eru á vegum bílaframleiðenda eða tengd þeim, hallar enn á þau óháðu. Þau eiga erfitt með að komast yfir nauðsynlegar tækniupplýsingar frá bílaframleiðendum á formi sem er læsilegt fyrir venjulegar tölvur og upplýsingarnar eru seldar of dýrt.

Samtök evrópskra bílasölu- og bílaviðgerðaaðila, Cecra gerðu þessa könnun sl. sumar og verða niðurstöðurnar afhentar Evrópuráðinu með kröfu um skýrari reglur og viðurlög þegar í stað við samkeppnishindrunum af þessu tagi.  Í þessum viðskiptum eigi að ríkja jafnræði og eðlileg samkeppni sem tryggi neytendum - bifreiðaeigendum góðar viðgerðir á sannvirði.

Formaður og lögmaður sambands verkstæða innan sænska bílgreinasambandsins segja í samtali við Motormagasinet í Svíþjóð að könnunin staðfesti að ólöglegar hindranir séu enn lagðar í veg óháðu bílaverkstæðanna þrátt fyrir að næstum fimm ár séu síðan það varð ólöglegt. –Ekki má lengur mismuna almennu bílaverkstæðunum. Öll verkstæði, bæði almenn og þau sem tengjast beint eða óbeint einstökum bílaframleiðendum eiga að geta keppt jafnfætis og þannig veitt víðtækari þjónustu á betra verði. En til að það geti orðið þarf samkeppni að vera virk í öllum þáttum bílgreinarinnar, segir formaður sænska verkstæðasambandsins.  

Alls tóku rúmlega tvö þúsund óháð verkstæði í 11 Evrópulöndum þátt í könnuninni, þar af 61 í Svíþjóð. Niðurstaðan sýnir greinilega að enn er hindrunum beitt gegn  verkstæðum og einstökum bifvélavirkjum til að hindra að þeir komist yfir réttar rafrænar tækniupplýsingar sem þeir þarfnast til að geta lagfært bíla. Hindranirnar eru gjarnan þær að upplýsingarnar eru forritaðar þannig að þær eru ólæsilegar í venjulegum tölvum eða verðlagðar svo hátt að kaup á þeim í læsilegu formi er ofviða venjulegum almennum verkstæðum eða einyrkjum. Á þessu verði Evrópusambandið að ráða bót og tryggja öllum viðgerðaaðilum aðgang að upplýsingunum, enda séu þær í rauninni eign bíleigendanna og hluti þess sem neytandinn keypti þegar hann festi kaup á bílnum. Viðgerðaaðilar eigi að geta nálgast upplýsingarnar sem víðast og ekki bara hjá framleiðanda eða umboðsaðila hans heldur líka frá stórum tölvu- og hugbúnaðarframleiðendum eins og Bosch, Delphi o.fl.