Ókeypis sparakstursnámskeið hjá HEKLU

http://www.fib.is/myndir/VW_logo.jpghttp://www.fib.is/myndir/Hekla_logo.jpg

Almenningi gefst kostur á að sækja sérstök sparakstursnámskeið á næstu vikum í boði Volkswagen og HEKLU. Um er að ræða tveggja tíma námskeið sem haldin eru í samstarfi við Félag ökukennara, blanda af bóklegri fræðslu og verklegri kennslu í akstri. Ávinningur hvers og eins er svo mældur en að sögn kennara námskeiðanna er algengt að eldsneytiseyðsla fólks minnki um 10-15% með breyttu aksturslagi.

„Undanfarna áratugi hefur Volkswagen lagt mikla áherslu á að draga úr eldsneytisnotkun bíla með ýmiss konar tækninýjungum. Þessi námskeið eru eðlilegt framhald af þeirri hugsun og hjálpa bæði heimilisbókhaldinu og umhverfinu á tímum aðhalds og umhverfishugsunar“, segir Jón Trausti Ólafsson, markaðsstjóri HEKLU, umboðsaðila Volkswagen á Íslandi.

Námskeiðin verða haldin næstu fjórar helgar í Volkswagen sal HEKLU við Laugaveg og er aðgangur ókeypis. Skráning er hafin á www.volkswagen.is, en takmarkaður sætafjöldi er í boði.