Okur álagning á bensín

Bensínverð hefur gengið niður á erlendum mörkuðum síðustu daga. Þróunin hefur ekki verið sú sama varðandi dísilolíuna. Meðalverð dísilolíu á heimsmarkaði í febrúar er um 3,50 krónum hærra á hvern lítra samanborið við bensínið. Til neytenda á Íslandi er lítraverðið á dísilolíu hins vegar 2 krónum ódýrara heldur en lítraverðið á bensíni. Hvernig geta olíufélögin réttlætt allt að 5 krónum lægri álagningu á dísilolíulítra samanborið við lítra af bensíni. Greinilegt er að samkeppnin um dísilolíukaupin er harðari og meira um magnkaupendur, flotarekendur og verktaka. Bensínbíllinn er oftast einstaklingstengdur og olíufyrirtækin láta þessa auknu samkeppni um stórnotendur bitna á bílafjölskyldunum. Hér er um að ræða óþolandi skilaboð til stærsta hóps viðskiptavina olíufélaganna. Það er réttlætismál að bensínið lækki enn frekar enda ljóst að markvisst hefur álagning á þann dýra dropa verið að aukast á undanliðnum mánuðum.
Bensínverð á heimsmarkaði lækkaði í síðustu viku (6. – 10 febrúar) um ríflega 1,40 krónur á lítra samanborið við næstu viku þar á undan. Það sem af er þessari viku hefur verðið lækkað enn frekar. Esso hefur löngum verið verðleiðandi á íslenskum olíumarkaði og þar á bæ hafa menn sagt að verðlagningin sé endurmetin vikulega. Ekkert gerðist í verðlagsmálum hjá Esso eða hinum gömlu félögunum fyrr en Atlantsolía lækkaði í gær.

Hér undir er línurit sem sýnir þróun bensínverðs og álagningu síðustu vikurnar.

Álagningin í desember var um 1,40 krónum hærri á lítra samanborið við meðalálagningu árið 2005 uppreiknað með vísitölu neysluverðs. Álagningin í desember var um 23,60 krónur en fór í síðustu viku hátt í 25 krónur. Neytendur eiga inni skýringu frá olíufélögunum á þessari verðþróun og bensínokrinu.