Ölfusárbrú sandblásin og máluð

Vegagerðin vinnur nú að undirbúningi viðhaldsframkvæmda á Ölfusárbrú. Um er að ræða sandblástur og málun stálgrindar undir brúnni. Gert er ráð fyrir að sandblása og mála alla grindina í aðalbrúnni sem er undir brúnni. Þetta kemur fram á sunnlenska.is

Brúin verður máluð í sama lit og nú. Gerðar eru miklar kröfur til varna vegna ryks og málningar, þannig er gerð krafa um að sett verði net á brúna báðum megin sem eigi að taka við öllum óhreinindum og málningu.

Til að koma ofangreindum vörnum fyrir þarf að gera brúna einbreiða í stuttan tíma þegar verið er að setja niður net þar sem ekki gönguleið, reiknað er með að sú vinna verði gerð á kvöldin þegar umferð er sem minnst.

Verktaka er ekki heimilt að vinna nema til kl. 20 á kvöldin við sandblástur og málningu vegna nálægðar við íbúðarbyggð og hótel. Verktími er áætlaður frá júní fram til 25. ágúst.

Hraði á brúnni lækkaður
Hraði á brúnni verður tekinn niður í 30 km/klst þegar verið er að ganga frá vörnum annars 50 km/klst. Gert er ráð fyrir að gönguleið verði opin allan verktímann, þó með einhverjum truflunum.

Verktaki fær afnot af svæði við brúna fyrir tæki og vinnuskúra í samráði við Sveitarfélagið Árborg.  Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að hann muni gæta fyllsta öryggis vegfarenda sem og uppfylla skilyrði sveitarfélagsins um frágang að loknu verki sem og snyrtimennsku á verktíma.

 

Mynd: Vegagerðin vinnur nú að undirbúningi viðhaldsframkvæmda á Ölfusárbrú. sunnlenska.is/Guðmundur Karl.