Olían lækkar á heimsmarkaði

Hráolían á markaði í Lundúnum lækkaði um rúmlega 3 dollara á tunnu í dag. Tunnan kostaði rúmlega 129 dollara við lokun markaða og í New York fór tunnan niður í rúmlega 127 dollara. Alþjóðlegar fréttastofur tengja þessa lækkun fréttum um að hitabeltisstormurinn Dolly fari líklega fram hjá helstu olíuvinnslusvæðunum á Mexíkóflóa

Samfara lækkun á hráolíu lækkaði heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu á mörkuðum. Tonnið af 95 oktan bensíni lækkaði um 62 dollara og fór í 1.028 dollara. Dísilolían lækkaði um 16,75 dollara og var í 1.232 dollurum á tonnið.

Þegar þetta er ritað á þriðjudagskvöldi hefur ekkert íslensku olíufélaganna tilkynnt um lækkun. Bensínið lækkaði í dag um rúmlega 3 krónur á lítra á heimsmarkaði en dísilolían mun minna eða 0,40 krónur á lítra.

Neytendur ættu að eiga von á lækkun, því til viðbótar við þessar verðbreytingar þá er meðalálagning íslensku olíufélaganna nú í júlí sú hæsta sem sést hefur á þessu ári. FÍB hefur uppreiknað allar tölur til verðlags í dag með vísitölu neysluverðs. Olíufélög hafa neitað þessum fullyrðingum FÍB með yfirlýsingum um fjármagnskostnað m.a. vegna birgða. Félögin hafa ekki lagt fram nein haldbær töluleg rök fyrir fullyrðingum sínum. Fákeppnin heldur velli því allir keppinautarnir á markaði hafa verið að hækka álagningu.