Olís hækkar eldsneytið um þrjár krónur

Verðhækkun varð í gær hjá Olís á bílaeldsneytieldsneyti. Hækkunin er þrjár krónur á lítrann og kostar nú bensínið í sjálfsafgreiðslu kr. 199,20 og dísilolíulítrinn er á kr. 197,90. Verð með þjónustu er þannig komið upp fyrir 200 krónur lítrinn. Þegar þetta er ritað hafa önnur olíufélög ekki hækkað hjá sér, a.m.k. enn.

Fréttavefur FÍB hafði sambandi við Samúel Guðmundsson framkvæmdastjóra vörustýringarsviðs félagsins. Hann sagði að ástæða hækkunarinnar nú væri fyrst og fremst þeir nýju skattar og skattahækkanir sem lagðar hafa verið á eldsneytið og tóku gildi um sl. áramót.

Skattarnir leggjast á nýjar birgðir eldsneytis jafnharðan og þær berast til landsins og á dreifingarstöðvar olíufélaganna. Eftir að nýtt ár gekk í garð  hafa nokkur stór olíubirgðaskip komið til landsins og skipað upp nýjum eldsneytisbirgðum þannig að vænta má hækkana hinna olíufélaganna innan skamms. Litlar breytingar hafa að undanförnu átt sér stað á heimsmarkaðsverði olíu og á gengi krónunnar þannig að fyrst og fremst eru það nýir og hærri eldsneytisskattar sem eru nú að byrja að valda neytendum búsifjum.