Olíufélagið Exxon með methagnað 2008

http://www.fib.is/myndir/Exxon-logo_0.jpg

Exxon Mobile, sem er stærsta olíufélag heims, skilaði methagnaði í fyrra enda var olíuverð þá gríðarlega hátt og í hæstu hæðum í sögulegu samhengi.

Hreinn hagnaður Exxon varð 45,2 milljarðar dollara. Mestur var uppgangurinn á öðrum og þriðja ársfjórðungi, en mjög hægði á gróðanum á þeim fjórða og næsta ár gæti orðið Exxon og öðrum olíuframleiðendum nokkuð þungt í skauti vegna þess hve mjög olíuverð hefur fallið.

Exxon Mobil olíufélagið er stærsta olíuframleiðsluveldi heims. Það er einnig stærst í heimi hvað varðar veltu, en velta þess var á síðasta ári 477 milljarðar dollara.

Stærstur hluti hagnaðarins í fyrra var af sölu bæði óunninnar olíu (hráolíu) og eldsneytis og annarra unninna olíuafurða. Blómatími ársins var sumarið, en þá var olíuverð gríðarlega hátt, hið hæsta nokkru sinni. En með haustinu tók verðið að lækka og síðustu þrjá mánuðina dró úr hagnaðinum um heil 27 prósent hjá Exxon.

En hinn gríðarlegi hagnaður ársins í heild hjá Exxon Mobils þykir mörgum staðfesta það að olíufélögin yfirleitt leggi mjög mikið á eldsneytið. Þær grunsemdir eru svosem ekki nýjar fyrir okkur Íslendinga því að olíufélögin hér heima hafa jafnt og þétt undanfarið ár verið að bæta í álagningu sína, eins og FÍB hefur margsinnis bent á, t.d. í þessari frétt.

Svipaða sögu er raunar að segja í grannlöndunum og í Bretlandi hefur Gordon Brown forsætisráðherra krafist þess að olíufélögin lækki eldsneytisverð og skili þannig neytendum til baka ofurálagningu og hagnaði sem þau hafa náð að raka til sín í skjóli hás hráolíuverðs og verðsveiflna á síðasta ári.