Olíufélögin lækka verðið á eldsneyti

Atlantsolía lækkaði verðið á eldsneyti árla í morgun. Í kjölfarið lækkaði Orkan og síðan ÓB, Olís og Shell.  Bensínlítrinn lækkaði um 2 krónur og kostar nú  235,60 krónur hjá Atlantsolíu.  Dísilolían lækkaði um 3 krónur lítrinn og kostar sama og bensínlítrinn.  Lítrinn er nú ódýrastur hjá Orkunni 235,50 krónur. ÓB er með sama verð og Atlantsolía en algengt verð hjá N1 er 235,70 krónur og hjá Olís 235,80 krónur lítrinn.  Eina félagið sem er með mismundandi verð á bensíni og dísilolíu er Shell en þar kostar bensínlítrinn 237,50 krónur og dísillítrinn 235,80 krónur.

Í kjölfar lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu hefur eldsneytislítrinn lækkað um tæpar sjö krónur frá fimmtudeginum 4. ágúst.

Samkvæmt útreikningum FÍB eiga neytendur inni enn frekari lækkun á eldsneyti.  Meðalálagning olíufélaganna það sem af er ágúst mánuði, uppreiknað með neysluverðsvísitölu, er 5 til 7 krónum yfir álagningu síðustu tveggja ára. 

Markaðir hafa haldið áfram að lækka í Bandaríkjunum í dag.  Í Evrópu lækkaði markaðsverðið á olíu framan af en hækkaði aftur upp úr hádegi.  

Viðbót við frétt kl. 17:00.

Brent Evrópu olíuverðið tók að rísa eftir hádegi í dag.  Við opnun markaða í morgun var verðið rúmir 103 Bandaríkjadollarar á tunnu en féll lægst niður í tæpa 99 dollara.  Þrátt fyrir verðhjöðnun undir hinn sálfræðilega verðþröskuld 100 dollarar á tunnu í morgun þá reis verðið aftur og hefur farið hæst í tæpa 106 dollara í dag og stendur þegar þetta er skrifað í 104,5 dollurum.

 

Dropinn lækkar