Olíuframleiðsluland vil banna bensínnotkun

 http://www.fib.is/myndir/Norski-fani.jpg

Norska ríkisstjórnin íhugar að banna sölu nýrra bíla sem eingöngu geta notað bensín sem orkugjafa. Hugsanlegt er að bannið taki gildi eftir einungis sjö ár. Þetta kemur fram í frétt frá NTB fréttastofunni sem birst hefur í norskum og sænskum dagblöðum.

Í fréttinni er haft eftir upplýsingafulltrúum norsku ríkissstjórnarinnar að mikil vinna fari nú fram í málinu og miðað sé við það að bensínknúnir bílar verði bannaðir í Noregi frá og með janúar 2015 og ekki síðar en árið 2020. Upplýsingamálaráðherra Noregs; Liv Signe Navarsete vill hvorki játa þessu né neita við fréttamann.

Allur bílafloti Norðmanna, fólksbílar og vörubílar, gefur frá sér um fjórðung þess magns koldíoxíðs sem fer út í andrúmsloftið á ári.

Norðmenn eru mikið olíuframleiðsluríki og mikið magn af bensíni er framleitt í landinu til útflutnings. Ekkert er um það getið í fréttinni að Norðmenn hyggist draga úr bensínútflutningi sínum um leið og þeir banna bensínbíla í eigin landi.

Svipaðar hugmyndir um að banna bensínbíla eru uppi í Kaliforníu í Bandaríkjunum.