Olíugjaldið áfram 41 króna á lítra

Fjármálaráðherra leggur til framlengingu til ársloka 2007 á tímabundinni lækkun olíugjalds úr 45 krónum í 41 krónu.  Olíugjaldið er skattur á dísilolíu til bifreiðanota og hefur verið 41 króna frá því lögin um olíugjald tóku gildi 1. júlí 2005. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um umtalsverða hækkun sekta vegna brota á lögunum.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að á vormánuðum 2006 hafi fjármálaráðherra skipað starfshóp sem falið var að skoða lögin um olíugjald heildstætt með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin var á framkvæmd þeirra. Ráðgert er að starfshópurinn ljúki störfum á næstunni en með frumvarpinu er brugðist við þeim vandamálum sem komið hafa í ljós við framkvæmd laganna og starfshópurinn telur brýnt að tekið sé á nú þegar. Önnur atriði sem komið hafa til umræðu í starfshópnum og varða kerfisbreytinguna í stærra samhengi verða áfram til skoðunar innan ráðuneytisins.

Fram kemur í frumvarpinu að frá því að olíugjald var tekið upp hafi heimsmarkaðsverð á dísilolíu oftar en ekki verið hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Aðilar á markaði eru á því að líklega haldist þessi verðmunur áfram um langan tíma. Mikilvægt er að innbyrðis samræmi sé í skattlagningu á dísilolíu og bensíni þannig að dísilknúnar fólksbifreiðar geti orðið álitlegri kostur fyrir einstaklinga en þær hafi verið hingað til.

Fjármálaráðuneytið leggur einnig til breytingar á sektum vegna brota á ákvæðum um notkun litaðrar olíu á bifreiðar án heimildar. Breytingin lýtur einkum að því að lagt er til að sektarfjárhæðin taki mið af heildarþyngd ökutækisins og fari stighækkandi eftir því sem þyngd ökutækis eykst, í stað þess að taka mið af þeirri fjárhæð sem ætla má að hafi verið dregin undan. Ekki er lagt til að gerð verði breyting á því hvað teljist vera refsiverð háttsemi frá því sem er í núgildandi lögum. Stefnt er að því að refsiákvæði laganna verði gagnsærri og beiting þeirra skilvirkari.

Samkvæmt frumvarpinu verða sektarfjárhæðir sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki samkvæmt eftirfarandi töflu:

Heildarþyngd ökutækis: Fjárhæð sektar:
0–3.500 kg 200.000 kr.
3.501–10.000 kg 500.000 kr.
10.001–15.000 kg 750.000 kr.
15.001–20.000 kg 1.000.000 kr.
20.001 kg og þyngri 1.250.000 kr.