Olíuverð á heimsmarkaði heldur áfram að lækka

Heimsmarkaðsverð af hráolíu hefur ekki verið lægra í átta mánuði. Tunnan lækkaði á mörkuðum í gær um rúmlega 6% og hefur lækkunin á einum degi ekki verið meiri síðan í byrjun júlí í sumar. Í október var tunnan á 86 dollara en í gær var tunnan komin niður í 66 dollara.

Lækkunina síðustu vikurnar má rekja til að framboð á markaði verði umfram eftirspurn og minnkandi hagvaxtar í heiminum. Um helgina lækkaði verð á eldsneyti hér á landi um þrjár krónur svo neytendur eiga að öllum líkindum von á enn frekari lækkun í þessari viku ef fram heldur sem horfir.

OPEC-ríkin komu saman til fundar um síðustu helgi og kom þar fram að draga þyrfti úr framleiðslu á næstu mánuðum. Markmiðið væri að ná jafnvægi á markaðnum. OPEC-ríkin koma aftur saman til fundar í byrjun næsta mánaðar og þá er búist við að þau tilkynni enn frekari breytingar á olíuframleiðslu sinni.