Öll réttindi þurfa að vera í lagi til að aka um með stór hjólhýsi

„Þeir sem tóku bílpróf fyrir árið 1997 þeir fengu réttindi til að draga vagn upp að 3.500 kílóum og aka bíl upp að 3.500 kílóum en hins vegar þeir sem að tóku próf eftir 1997 fengu svokölluð b-réttindi og þar má heildarþyngd vagnlestarinnar ekki fara yfir 3.500 kíló. Ökumenn þurfa að ganga úr skugga um að þeir hafi réttindi til að aka um vegi landsins með hjólhýsi og eftirvagna. Hafa verður í huga að til að draga stóra vagna þarf nógu öfluga bíla,“ segir Björn Kristjánsson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í viðtali í hádegisfréttum RÚV.

Ljóst er að Íslendingar munu ferðast meira um landið í sumar en þeir hafa gert áður vegna ferðatakmarkana og í ljósi kórónaveirufaraaldsins. Björn Kristjánsson segir mikilvægt að ökumenn séu meðvitaðir um að akstur með þungan eftirvagn krefst þjálfunar og færni.

Björn segir ennfremur að hjólhýsi eru misþung en algengt er að þau séu á bilinu 1.000 til 1.500 kíló. Sum hver eru allt að 2.000 kíló. Í skráningarskírteinum bíla er gefið upp hvað þeir mega draga mikla þyngd. Ef farið er yfir uppgefna þyngd getur það skemmt sjálfskiptingu, drifbúnað, mótor og bremsubúnað ökutækja auk þess sem öryggi er ógnað.  Björn segir að allir ökumenn þurfi að yfirfara vagnana reglulega og ganga úr skugga um að öryggisbúnaður og lestun sé í lagi.

Hann leggur áherslu á að ökumenn sem ekki hafa reynslu af því að draga hjólhýsi kynni sér hvernig bera eigi sig að og verða sér út um tilskilin leyfi og réttindi. Þá sé lykilatriði að gefa sér góðan tíma og fara varlega á ferðalagi um landið.

Viðtalið við Björn má nálgast hér.