ON eflir þjónustu við rafbílaeigendur um verslunarmannahelgina

Orka náttúrunnar mun leggja kapp á að rafbílaeigendur geti nýtt sér hlöður fyrirtækisins vítt og breitt um landið. Til dæmis er unnið að endurnýjun á hraðhleðslum við Glerártorg á Akureyri og í Búðardal.

Orka náttúrunnar rekur fleiri en 60 hraðhleðslur fyrir rafbíla og nær net þeirra hringinn í kringum landið. Þetta uppbyggingarverkefni ON hófst árið 2014 og sífelld endurnýjun stendur yfir. Elsti búnaðurinn sem er í notkun er óstöðugri í rekstri en sá nýrri og komið hefur fyrir að rafbílaeigendur hafi lent í töfum við hleðslu, til dæmis á Akureyri. Við þessu er Orka náttúrunnar að bregðast.

Aðgerðir ON nú fyrir Verslunarmannahelgina eru þessar:
• Endurnýjun á hraðhleðslu við Glerártorg á Akureyri.
• Endurnýjun á hraðhleðslu í Búðardal.
• Farið verður yfir stöðvar sem hafa verið óstöðugar; því er þegar lokið í Varmahlíð, á Egilsstöðum og Stöðvarfirði.
• Þjónusta bakvaktar ef eitthvað ber út af verður efld.

Mikilvægt er að rafbílaeigendur sem koma að hleðslu sem ekki virkar eða lenda í vandræðum af einhverju tagi við hlöðurnar hafi samband við þjónustuver ON. Oft dugar að endurræsa hraðhleðslurnar með fjarstýringu og fólk getur fengið leiðbeiningar og aðra aðstoð hjá þjónustufulltrúum. Þjónustusími ON er 591 2700.