Opel lyftir upp sængurhorninu

Opel ætlar sér að hafa sterka nærveru á bílasýningunni í Genf í næsta mánuði og hefur sent frá sér fréttatilkynningu og mynd af grilli á bíl sem sagður er vera frumgerð mikillar nýjungar sem væntanleg er frá Opel á næstu árum. Myndin segir svo sem ekki neitt og sýnir ekki annað en hluta af grilli á framenda bíls og Opel merkið, eldinguna með einhverjum ljósakrúsildúllum sem líta svipað út og straumrásir í tölvuinnviðum.

En eitt er þó víst að rafmagnsbíllinn Opel Ampera (Chevrolet Volt) verður sýndur í Genf. Einnig mun gefa að líta nýja ofursparneytna gerð Opel Corsa smábílsins og hinn nýja Opel Meriva sem er lítill fjölnotabíll. Allt eru þetta mjög sparneytnir bílar og tilheyra flokki lítilla og meðalstórra bíla.

http://www.fib.is/myndir/OpelAmpera_chassi.jpg
Voltec undirvagn. Mjög sveigjanlegur - allar breytingar auðveldar.

Hvað þessi mikla nýjung sem Opel ætlar auk þeirra að sýna er óljóst en evrópskir bílafjölmiðlar segjast hafa heimildir fyrir því að um geti verið að ræða einhverskonar nýja tækni sem nýtir orku sem framleidd er með sjálfbærum hætti og einhverskonar nýjan drifbúnað. Sjálfur þessi nýi hugmyndarbíll verði af efri millistærð. Bíllinn eigi að sýna fram á að gott pláss, þægindi og lúxus og mikil sparneytni á eldsneytið geti alveg farið saman.

Raunar sagði Opel forstjórinn Nick Reilly fyrr í vikunni í grein um framtíðaráform og –horfur hjá Opel, að sýndur yrði bíll sem er einskonar framtíðarþróaður Chevrolet Volt/Opel Ampera, byggður á Voltec kerfinu, sem er undirvagn og vélbúnaður Volt/Amper bílsins. Volt/Amper er ekki enn kominn í framleiðslu og er fyrst væntanlegur á markað á næsta ári.

Voltec kerfið, eða undirvagninn, véla- og drifbúnaðurinn er þannig hannað að ofan á það má byggja margskonar yfirbyggingar með fjölbreytt notagildi í huga. Sjálft vél- og drifkerfið vinnur þannig að rafmótorinn einn knýr bílinn áfram en lítill brunahreyfill knýr rafal sem fer í gang þegar orkustaða geymanna er orðin lág. Þetta er því rafbíll með „ljósamótor“ eða rafstöð, ólíkt Prius tvinnbílnum sem knúinn er áfram af bæði rafmótor og bensínvél gegn um stiglausa CVT sjálfskiptingu.

Voltec undirvagninn er auk þessa þannig upp byggður að auðvelt er að skipta út einstökum hlutum eins og mótorunum. Ljósamótorinn getur þannig verið bensínvél eða dísilvél eða þá efnarafall sem breytir vetni í rafstraum eða túrbína sem getur gengið fyrir nánast hvaða brennanlegu eldsneyti sem er. Þetta er auðvitað mögulegt vegna þess að bíllinn er í rauninni bara rafmagnsbíll og gæti þessvegna bara haft eingöngu rafgeyma sem hlaðnir eru upp í innstungunni á húsveggnum yfir nótt, en engan brunahreyfil.

http://www.fib.is/myndir/Opel-Cadillac.jpg
Bob Lutz við Cadillac Converj sem byggður er á Voltec undirvagni.

Þannig má alveg hugsa sér að bíllinn sé með ljósamótor í fyrstunni meðan bæði innviðir eru enn að þróast fyrir rafbíla og sjálfir rafgeymarnir að þróast til bæði fljóthlaðnari, ódýrari og léttari geyma sem áreiðanlega munu smátt og smátt koma fram og verða fáanlegir eftir því sem þróuninni í geymaframleiðslunni og geymafræðunum fleygir fram. Með bættum innviðum samfélagsins fyrir rafbíla minnkar þörfin þannig fyrir rafstöðina um borð í rafbílnum smám saman.