Opelbílar meðal þeirra bestu
Þýska bílaskoðunar og vottunarfyrirtækið Dekra hefur gefið út árlega tölfræðilega samantekt um ágalla sem fram koma við árlega öryggisskoðun bíla. Í efsta sæti þriðja árið í röð er Opel Astra. 96,9 prósent Opel Astra bíla sem ekið hefur verið allt að 50 þúsund km reyndust fá skoðun án athugasemda. Í öðru sæti með 96 prósent bíla án athugasemda varð Opel Insignia og í því þriðja Renault Megane með 95,9 prósent án athugasemda.
Við greindum nýlega frá samskonar tölfræði frá TÜV sem líka er þýskt og er í sömu starfsemi og Dekra. Hjá TÜV er Toyota Prius í efsta sætinu. Það verður að hluta til rakið til þess að TÜV greinir bílana í flokka eftir aldri þeirra en Dekra út frá hverjum 50 þúsund eknum kilómetrum. Fyrsti flokkurinn er þannig bílar sem ekið hefur verið allt að 50 þús. km. Í þeim næsta eru bílar sem runnið hafa allt að 100 þús. km og í þeim þriðja bílar sem eknir eru allt að 150 þús. km.
Toyota Prius og Audi A4 góðir
Hjá Dekra er Toyota Prius bestur í flokki bíla með 50-100 þúsund kilómetra á teljaranum en 87,5 prósent þeirra fengu enga athugasemd. Í flokki bíla með 100-150 þúsund km á teljaranum er Audi A4 bestur með 76,8 prósent bíla án athugasemda.
Að meðaltali komast 80,2 prósent bíla í 0-50 þús. km flokknum athugasemdalaust gegn um skoðun. Í flokki 50-100 þús. km er hlutfallið 56,5 prósent og í flokknum 100-150 þús. km er það einungis 33,6 prósent.
Ljósabilanir algengastar
Í skoðun hjá Dekra er 19,7 prósent athugasemda vegna bilaðra ljósa og rafkerfisbilana. Athugasemdir vegna hemla eru 11,8 prósent og vegna slits og bilana í stýrisliðum 9,6 prósent. 8,3 prósent athugasemdanna eru svo vegna pústkerfis eða ágalla í vélum bílanna. Athugasemdir vegna framannefnds eru oftast vegna þess að skipta þarf um stýrisenda og/eða spindilkúlur, hemlaklossa og/eða hemladiska, stöðva þarf olíuleka frá vél og/eða gírkassa, skipta þarf út brotnum fjaðragormum og loks skipta um perur eða perustæði í ljósum og stilla aðalljós.
Ryðið á undanhaldi
Loks sýnir tölfræðin það að ryðskemmdir á bílum eru ekki eins algengar nú og var fyrir einum til tveimur áratugum. Sjaldgæfara er orðið að ryðskemmdir finnist, sem veikja burðarþol og höggþol bíla. Þá eru ryðskemmdir í gólfi bíla og á hemladiskum, hemlarörum og eldsneytisrörum sjaldgæfari en áður var.