Opinbert leyfi til að kaupa Rússajeppa

Ekki vitum við til þess að nokkur manneskja líti með söknuði til þeirra tíma þegar sækja þurfti um leyfi til sérstakrar ríkisnefndar um að mega kaupa sér nánast alla skapaða hluti, þar á meðal bíla. Félagsmaður í FÍB hefur sent okkur mynd af bréfi sem Úthlutunarnefnd jeppabifreiða sendi umsækjanda þann 23. mars árið 1956. Í því segir að umsækjanda hafi verið veitt leyfi til að kaupa sér Rússajeppa hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum. En áður en hann geti fengið bílinn afhentan verði hann að undirrita skuldbindingu um að hann ætli sjálfur að nota bílinn og að hann megi ekki selja hann nema hann sæki fyrst um leyfi til þess til hinnar háttvirtu opinberu nefndar.

En af hverju Rússajeppi? Jú, það var nefnilega þannig að á þessum árum átti sér stað vöruskiptaverslun við Sovétríkin. Íslendingar seldu Sovétmönnum ýmsan varning, aðallega fisk og fiskafurðir og einhverjar iðnaðarvörur eins og ullarvörur frá Álafossi og SÍS og jafnvel svart bílalakk. Fyrir þetta greiddu Sovétmenn með bensíni og olíu og bílum - Rússajeppum en líka Moskvítsum og Volgum.

Þessi viðskipti voru öll á forræði ríkisins. Það voru starfsmenn stjórnvalda sem önnuðust viðskiptin sjálf og úthlutunarnefndir sáu síðan um það að ákveða hverjir fengju að miðla varningnum til kaupenda og ekki síst að velja þá úr meðal almennings sem náðarsamlegast fengju að kaupa sér bíl.