Örlög Saab að ráðast

Samkvæmt Reutersfrétt er rússneski fjármálamaðurinn Vladimir Antonov bjartsýnn á að sænsk stjórnvöld heimili honum að ganga inn í Saab sem meðeigandi. Antonov sem er viðskiptafélagi Hollendingsins Victors Muller fékk ekki að vera með í kaupum Mullers á Saab fyrir fáum mánuðum, vegna fregna um að Antonov tengdist glæpsamlegri starfsemi.

Framleiðslan hjá Saab hefur gengið mjög rykkjótt undanfarið vegna alvarlegs lausafjárskorts sem gert hefur fyrirtækinu ómögulegt að borga reikninga undirframleiðenda og annarra viðskiptaaðila.

Gert er ráð fyrir að Antonov komi inn í Saab með aukið hlutafé jafnframt því að 400 milljóna lán frá Evrópska fjárfestingabankanum sem sænska ríkið ábyrgist, komi til útborgunar. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Sænsk stjórnvöld vilja bæði að fjárhagsleg staða Saab styrkist en líka vilja þau vita vissu sína bæði um fjárhagsstöðu Saab og þær leiðir sem fara skal út úr greiðsluvandaflækjunni en líka um að nýr stór hluthafi eins og Antonov tengist í engu glæpastarfsemi. Hvorttveggja verði að vera á hreinu áður en ríkisábyrgðin tekur gildi.

Í tilkynningu frá ríkisskuldaskrifstofu Svíþjóðar í gær má ráða að stutt sé í niðurstöðu í málinu og að líklegra sé að hún verði Saab og Antonov í vil. Meðal þess sem sænska ríkisskuldaskrifstofan leggur til er að Saab selji eignir eins og samsetningarverksmiðjuna í Trollhattan og leigi hana síðan. Búast má þannig við að hugmyndin sé sú að Antonov kaupi verksmiðjuna. Á Twitter samskiptavefnum segir Antonov í dag að hann sé bjartsýnn á jákvæða niðurstöðu en segir ekkert um hvers eðlis hún er.

Framtíðarhorfur Saab eru í stórum dráttum mjög óvissar. Aldrei áður hafa jafn margar gerðir Saab bíla verið í boði en illa hefur gengið að framleiða bílana og selja síðan og tapið er stórt. Árið 2008 seldi Saab hátt í 95 þúsund bíla en á síðasta ári einungis um 30 þúsund. Ef tekst að vinda ofan af greiðsluerfiðleikunum og koma framleiðslunni í gang á ný er vonast til að nýjar gerðir og gott orðspor Saab bíla snúi óheillaþróuninni að undanförnu við.