Örugg fjarskipti í jarðgöngum

Kristinn Hauksson, rafeindatæknifræðingur, fjallar á vefsíðu Eflu um fjarskiptakerfi á landinu öllu. Greinin er rituð í kjölfar víðtæks fjarskiptaleysis sem varð eftir mikið óveður og ísingu í byrjun desember 2019. Kristinn telur að byggt hafi verið upp afar öflugt öryggis- og fjarskiptakerfi á hluta vegakerfisins, sér í lagi í jarðgöngum. Hins vegar hafi ekki tekist að byggja upp öflugt kerfi á öðrum stöðum landsins og mikilvægt sé að gera átak í þeim málum.

Í grein Kristins yfir fjarskiptakerfi í jarðgöngum og öryggi vegfarenda í þeim kemur fram að rafmagn er undirstaða þess að öryggiskerfi ganga virki. Öll nýrri jarðgöng séu því tengd tveimur aflfæðingum, inn í hvorn enda ganganna. Rofni önnur leiðin eru miklar líkur á að hin leiðin virki áfram. Rofni báðar leiðir tekur við varaafl á rafgeymum í 1 klst. fyrir neyðarlýsingu og önnur kerfi ganganna. Fjarskiptakerfi og stjórnkerfi hafa fjórfalt lengri endingartíma á varaafli sem tryggir neyðaraðilum nægan tíma til að sækja fólk inn í göngin, gerist þess þörf.

Fjarskiptakerfi jarðganganna byggjast á fjórum mismunandi tegundum kerfa; tetra, farsímakerfi, FM útvarpskerfi og neyðarsímkerfi og eru þau ætluð vegfarendum í göngunum sem og neyðar- og þjónustuaðilum ganganna.

Tetra
Fyrst ber þar að nefna TETRA fjarskipti fyrir neyðar- og þjónustuaðila. Tekið er á móti TETRA merki við báða gangamunna frá tveimur aðskildum TETRA sendum. Þetta er gert til að tryggja að TETRA samband í göngunum falli ekki út, þótt ekki náist samband frá öðrum hvorum enda ganganna, hvort heldur sem um er að ræða bilun í búnaði ganganna eða bilun í viðkomandi TETRA sendi.

Farsímakerfi (GSM/3G/4G)
Farsímakerfið er í flestum göngum í dag. Kerfið er dags daglega aðallega ætlað sem þjónusta við þá sem um göngin fara, en í neyðartilvikum hefur það sýnt sig að yfir 90% af upphringingum til 1-1-2 koma frá farsímum í göngunum. Jarðgöng hafa sinn eigin farsímasendi sem gerir Neyðarlínunni kleift að sjá hvaðan (úr hvaða jarðgöngum) hringt er. Farsímakerfin eru á sama hátt og TETRA kerfið byggt upp á endurvörpum þar sem bilun í einum þeirra hefur ekki áhrif á virkni kerfisins.

FM útvarpskerfi
Þriðja kerfið sem komið er upp í nokkrum jarðgöngum í dag er FM-útvarpskerfi. Kerfið, eins og GSM kerfið, nýtist til þæginda fyrir vegfarendur dags daglega, en er þannig hannað að hægt er að rjúfa allar rásir og koma skilaboðum til þeirra sem á það hlusta inn í göngunum. Þetta hefur sýnt sig að vera besta leiðin til að koma skilaboðum til þeirra sem sitja í bílum í göngunum og þarf einhverra hluta vegna að koma skilaboðum til, t.d. um að snúa við og aka út aftur. Kerfið er eins og áður nefnd kerfi keyrt á varaafli og með tvöfaldri virkni á endurvörpum sem kemur í veg fyrir að kerfið verði óvirkt, þótt einn þeirra bili.

Neyðarsímkerfi
Fjórða kerfi ganganna er síðan neyðarsímakerfi, sem tengt er í gegnum netkerfi ganganna. Neyðarsímarnir hringja sjálfvirkt í 1-1-2 um leið og tólinu er lyft. Netkerfið er í öllum tilfellum tengt við grunnnet fjarskipta (fjarskiptafélögin) með tveimur óháðum leiðum og í flestum tilfellum með ljósleiðurum frá báðum enda ganganna. Netkerfið og neyðarsímarnir eru, eins og aðrir hlutar fjarskiptakerfisins, tengt á varaafli.

Með lengri jarðgöngum lengist sá tími sem það tekur að komast út í neyðartilvikum. Því er stöðug unnið að því að auka öryggi ganganna t.d. með að skoða og meta hvort þörf sé á eftirlitsmyndavélakerfum, auknu varaafli með díselrafstöð, GPS staðsetningarkerfi sem gerir neyðaraðilum kleift að sjá staðsetningu á fólki í göngunum sem ber farsíma með ca. 2m nákvæmni, ef þörf er á að sækja það í göngin og svo mætti lengi telja.

Greinina í heild má sjá hér.