Örvæntingarfull söluherferð Chrysler í Bandaríkjunum

http://www.fib.is/myndir/DodgeRam.jpg
Dodge Ram 2006 - Ekki sérlega söluvænn um þessar mundir.

Chrysler berst nú við mikla sölutregðu á heimamarkaðinum, Bandaríkjunum. Nú þegar árið er senn á enda er verið að hleypa af stokkunum mikilli söluherferð í þeirri von að fá betri tölur í ársreikningana. Í þessari herferð geta söluumboðin vænst allt að sjö þúsund dollara sölulaun fyrir hvern bíl sem þeim tekst að selja fyrir áramótin næstu.

Chrysler hefur á þessu ári glímt við sölutregðu sem menn höfðu vissulega ekki reiknað með. Meginástæður hennar eru mjög hátt bensínverð í uphafi ársins sem hækkuðu stöðugt fram á mitt ár. Hið háa verð þýddi að margir þeirra sem voru í bílahugleiðingum keyptu innflutta sparneytna (ekki síst japanska) bíla en sniðgengu stóru amerísku bílana. Þessir kaupendur hafa ekki skilað sér til baka þótt bensínverðið hafi vissulega lækkað.

Chrysler situr því uppi með meiri birgðir óseldra bíla en nokkru sinni fyrr. Um er að ræða alls um 160 þúsund ökutæki  af árgerð 2006 sem þegar eru hjá söluumboðum um öll Bandaríkin. Til að fá einhvern gang í það að koma þessum farartækjum út býður Chrysler nú umboðunum allt upp í sjö þúsund dollara í sölulaun fyrir hvern bíl sem tekst að selja fyrir áramótin. Hæstu sölulaunin, eða sjö þúsund dollararnir fást fyrir að koma stórum pallbílum og jeppum af árgerð 2006 út, enda eru þessar gerðir bíla lang þyngstar í sölu um þessar mundir. Umboðin sjálf ráða hvernig þau ráðstafa sjö þúsund dollurunum, hvort eða hve mikið þau lækka verðið á bílunum.

Vandi Chrysler er ekki síst fólginn í því að mörg söluumboðanna hafa ekki getað losnað við eyðslufreku stóru bílana og sitja uppi með þá og hafa því ekkert svigrúm haft til að birgja sig upp af nýjum bílum af árgerð 2007 og af því sýpur Chrysler gamli seyðið og bílar af árgerð 2007 hrannast upp við verksmiðjudyrnar. Allt í allt er gert ráð fyrir því að Chrysler eigi nú um hálfa milljón óseldra bíla sem er óvenju mikið og allt of mikið.