Öryggi strætófarþega á vegum úti

Umferðarstofa og margir einstaklingar hafa látið í ljós áhyggjur af því að öryggi farþega í strætisvögnum milli byggðarlaga sé ekki sem skyldi. Öryggisbelti séu ekki í strætisvögnum eins og almennt eru í rútubílum og ef ekki séu sæti í vagninum fyrir alla farþega þá standi þeir í vagninum sem ekkert fá sætið. Áhyggjurnar snúast ekki síst um öryggi standandi farþega á langleiðum utan þéttbýlis. Umferðarstofa hefur tekið málið upp við innanríkisráðuneytið.

Meðal þeirra sem lýst hafa áhyggjum af þessu er Þórir Garðarssson forstjóri rútubílafyrirtækisins Allrahanda. Hann segir á Fésbókarsíðu sinni að það sé sérkennilegt að sveitarfélögunum sem séu að taka yfir almenningssamgöngur af sérleyfishöfum, eigi að leyfast að ofurselja farþega sína minna ferðaöryggi en þeir nutu hjá sérleyfishöfunum, með því að leyfa að farþegar standi á utanbæjarleiðum þar sem hámarkshraði er 90 km og umferð á móti. Þegar sérleyfishafar önnuðust þennan akstur var þeim skylt að sjá til þess að sæti væru til staðar fyrir hvern einasta farþega. Ef ekki, urðu sérleyfishafar að bæta við bíl. „Það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón,“ segir Þórir um þetta.

Þórir segir ennfremur að sitthvað sé að farþegar standi í strætisvögnum innanbæjar þar sem hraðinn sé minni og mun minni hætta á útafakstri eða framanáárekstri á 90 km hraða. Þórir tekur þannig undir með Einari Magnúsi Magnússyni hjá Umferðarstofu sem segir í samtali við RÚV að með því að hafa standandi farþega í strætisvagni á fullri ferð úti á þjóðvegum sé verið að fara út fyrir þau öryggismörk sem menn vilji draga og þetta sé einfaldlega ekki í lagi. Vonandi verði settar einhverjar reglur sem koma í veg fyrir að öryggi farþega verði stefnt í tvísýnu eins og Umferðarstofa telji að gert sé í dag.

Reynir Jónsson forstjóri Strætó segir við RÚV í frétt í morgun að ekki sé ólöglegt að farþegar séu látnir standa í strætó á lengri leiðum. Gagnrýni Umferðarstofu á því sé bara hennar skoðun og í samræmi við hlutverk hennar. En það sé löglegt að standa í vagninum og rannsóknir sýni að slysahætta í strætisvögnum sé minni en í einkabílum.