Öryggið verði fremst í forgangsröðinni

Á fundi sínum fyrr í dag, föstudag, samþykkti Umferðarráð eftirfarandi ályktun:

„Umferðarráð telur  að Vegagerðin hafi staðið vel að ýmsum framkvæmdum á undanförnum árum. Víða um land hafa vegir verið breikkaðir sem og vegaxlir, malbik hefur verið fræst í vegköntum og í miðlínu vega, sem veldur titringi í ökutækjum og auk þess hafa víða verið sett upp vegrið á hættulegum stöðum. En betur má ef duga skal.  Mikilvægt er að ekki verði slakað á kröfum til að viðhalda og byggja áfram upp öruggt og skilvirkt vegakerfi, þar sem forgangsröðun byggist á umferð á hverjum tíma og slysatíðni.

Mikilvægt er við forgangsröðun að umferðaröryggi sé alltaf haft í fyrirrúmi og tryggt sé að þær upplýsingar sem tiltækar eru um umferðarslys og svartbletti í vegakerfinu séu nýttar til að skila þeim árangri sem allir stefna að. Að fækka slysum og gera Ísland að fyrirmyndarlandi í umferðaröryggismálum.  En það gerist aðeins með því að nýta þá þekkingu og reynslu sem tiltæk er. Þess vegna hvetur Umferðarráð stjórnvöld til að standa vörð um umferðaröryggi allra landsmanna við framkvæmdir í vegagerð.