Pallbílalandið Tæland

Nú stendur yfir stór og mikil árleg 12 daga bílasýning í Bangkok í Tælandi. Þessi sýning er vettvangur asísku bílaframleiðendanna fyrst og fremst og hér eru vörumerki eins og Honda, Isuzu og Hyundai meðal þeirra sem mest ber á. Volkswagen sem er einn stærsti bílaframleiðandi veraldar er varla sýnilegur í Bangkok og Audi og Citroen eru hreinlega ekki til staðar.

Það er ekki að ástæðulausu að stór bílasýning sé haldin í Tælandi því bæði er landið miðsvæðis og mikill og ört vaxandi bílamarkaður í landinu er sjálfu og næstu grannlöndum. Gert er ráð fyrir því að á þessu ári muni seljast minnst ein milljón nýrra bíla í landinu sem er 30 prósentum meira en á síðastliðnu ári. Sjálf sýningin sem er mjög fjölsótt er einnig sölusýning á öðrum þræði. Reiknað er með að minnst 40 þúsund kaupsamningar um nýja bíla verði undirritaðir á þeim 12 dögum sem sýningin stendur, en henni lýkur 8. apríl.

Umtalsverð bílaframleiðsla fer fram í Tælandi og sem dæmi má nefna að Toyota HiLux pallbílar sem koma hingað til lands, eru flestir byggðir í Tælandi. Pallbílar eru vinsælustu bílarnir í Tælandi og í fyrra keyptu Tælendingar 327 þúsund pallbíla. Í ár er búist við því að yfir 400 þúsund nýir pallbílar seljist í landinu.