Peterhansel sigrar í 10. sinn

Dakar rallinu í S. Ameríku er nýlokið og Frakkinn Stephane Peterhansel sigraði í bílaflokki. Þetta er í tíunda sinn sem Peterhansel sigrar í þessu  erfiða eyðimerkurralli. Hann var áður margfaldur sigurvegari í mótorhjólaflokki en flutti sig svo af mótorhjólunum yfir í bílaflokkinn og var um árabil sigursæll meðlimur í liði Mitsubishi.

Mitsubishi dró sig út úr Dakar-rallsportinu fyrir fáum árum eftir samfellda sigurgöngu um langt árabil. Við tók þá lið Volkswagen sem átti m.a. sigurbílinn í fyrra, þó ekki með Peterhansel við stýrið, heldur Kúvætmanninn Nasser Al Attiyah. Volkswagen hefur nú farið að dæmi Mitsubishi og  lagt Dakarlið sitt niður og Peterhansel keppti að þessu sinni með liði Mini. Í öðru sæti varð líka Mini með fyrrum Mitsubishi keppandann Nani Roma við stýrið. Mini var að þessu sinni eini bílaframleiðandinn sem gerði út fjögurra bíla keppnislið í Dakar rallinu.

Stephane Peterhansel tók forystuna strax á fjórða keppnisdegi og jók síðan forskot sitt dag frá degi þar til hann á endanum stóð uppi sem sigurvegari með um það bil þriggja kortera forskot á liðsfélaga sinn, Nani Roma í öðru sætinu. Í þriðja sæti varð svo Giniel de Villiers á Toyotabíl. Hann varð um hálftíma á eftir Nani Roma.

Eitt dauðaslys varð í keppninni að þessu sinni þegar mótorhjólskeppandi féll á fyrstu sérleið. Þar með  eru dauðaslys í þessari erfiðu keppni komin yfir tvo tugi frá því að hún hófst. Og að venju lentu margir keppenda í margvíslegum erfiðleikum og mannraunum og tókst ekki að ljúka keppni. Þannig fór t.d. með sérbyggða sænska bílinn Volvo XC60 sem talsverðar vonir voru bundnar við. Hann hafði varla byrjað keppni þegar eldur varð laus í honum og brann hann til ösku. Hvorki ökumann né aðstoðarökumann sakaði þó.

Hér er röð fyrstu 10 keppenda í bílaflokki:

1. Stephane Peterhansel Mini 14 klst. 54,46 mín.
2. Nani Roma Mini + 41,56 mín.
3. Giniel de Villiers Toyota + 1.13,25 mín.
4. Leonid Novitskiy Mini + 2.11,54 mín.
5. Robby Gordon Hummer + 2.16,53 mín.
6. Lucio Alvarez Toyota + 4.05,52 mín.
7. Carlos Sousa Great Wall + 4.30,24 mín.
8. Ricardo Leal dos Santos Mini + 5.03,18 mín.
9. Bernhard Ten Brinke Mitsubishi + 5.11,18 mín.
10. Krzysztof Holowczyc Mini + 6.59,38 mín.