Peugeot 504 fertugur

http://www.fib.is/myndir/Peugeot-504.jpg
Peugeot 504.

40 ár eru nú liðin frá því að Peugeot 504 kom fram á sjónarsviðið. Bíllinn var frumsýndur í framleiðsluútgáfu á bílasýningunni í París í september árið 1968 og leysti af hólmi Peugeot 404.

Peugeot 504 var lítilsháttar stærri en fyrirrennarinn 404 og útlínur hans voru ávalari. Ein mesta framförin frá þeim eldri þótti fjöðrunarbúnaðurinn en öll hjól bílsins fjöðruðu sjálfstætt. Bæði 404 og 504 voru með drifi á afturhjólunum eins og flestir fólksbílar reyndar voru í þá gömlu og góðu daga. 404 hafði heila hásingu að aftan en því var breytt á 504 sem hafði sjálfstætt fjaðrandi afturhjól. Reyndar var sjálfstæði fjöðrunarbúnaðurinn að aftan nokkurskonar aukabúnaður því heili stífi afturöxullinn var eftir sem áður á ódýrari gerð bílsins.

Önnur stórframför þóttu diskahemlarnir sem voru við öll hjól og loks vélin sem var 1,8 l og var 82 hestöfl. Þá kom fljótlega önnur útgáfa vélarinnar með bensíninnsprautun í stað blöndungs. Sú var 15 hestöflum öflugri en blöndungsvélin.

Árið 1971 kom Peugeot fram á sjónarsviðið með 2.1 l dísilvél sem hér á landi varð nokkuð vinsæll bíl meðal leigubílstjóra. Dísilvélin þótti ágætlega endingargóð en talsvert grófgeng og hávaðasöm.

Áhugamenn um bílasport muna efalaust margir eftir Peugeot 504 því að hann var áberandi í rallinu lengi. Meðal frægra sigra þessa bíls í því sporti má nefna Safari rallið í Kenya 1975 en þar var ökumaðurinn Svíinn Ove Andersson. Þetta sama ár vann Peugeot 504 tvöfaldan sigur í Marokkórallinu. Loks er að nefna fimmfaldan sigur í svonefndu Bandama ralli á Fílabeinsströndinni.

Peugeot 504 kom fyrst fram sem stallbakur en síðan líka sem langbakur og ennfremur sem pallbíll. Útflutningi á bílnum frá Frakklandi var hætt um áramótin 1981-1982 en bíllinn var áfram á heimamarkaði í Frakklandi til 1984. Framleiðsla á honum hélt þó áfram í Afríku og S. Ameríku. Í Afríku (Nígeríu) stóð framleiðslan allt fram til ársins 2005. Peugeot 504 er því með langlífari bílum bílasögunnar.