Peugeot í Dakar rallið

Innan við mánuður er síðan Peugeot tilkynnti þátttöku í næsta Dakar ralli á nýjum bíl. Lítið var þá gefið upp um hverskonar bíll þetta væri en óljósar teikningar voru sýndar því til staðfestingar. En nú hafa betri upplýsingar og myndi fengist af farartækinu. Sömuleiðis er komið í ljós að miklir rallkappar keppa fyrir hönd Peugeot: Ökumaður verður Carlos Sainz sem sigraði á Volkswagen árið 2010 og aðstoðarökumaður hans verður Cyril Deprés sem sigrað hefur fimm sinnum í mótorhjólaflokki í Þessari erfiðu keppni.

Nýi bíllinn sem þeir munu aka í keppninni hefur nú fengið gerðarheiti. Það er Peugeot 2008 DKR sem efalaust á að sýna fram á tengsl keppnisbílsins við jepplinginn Peugeot 2008. En það verður að segjast að þótt samsvaranir séu í útliti bílanna er keppnisbíllinn 2008 DKR sérbyggður keppnisbíll sem á harla fátt sameiginlegt með fjöldaframleidda jepplingnum.

Dakar rallið er ein erfiðasta rallkeppni sem sögur fara af. Ekin vegalengd í þessari tæplega mánaðarlöngu keppni er þvílík að hún er álíka og samanlögð vegalengd allra keppnislotanna í árlegri heimsmeistarakeppninni í venjulega rallinu. Miklu skiptir því að ökutækin séu sterkbyggð og þoli hið gríðarlega álag og að þátttakendur séu hraustir, þrekmiklir og í mjög góðri þjálfun.

Hönnuðir keppnisbílsins og stjórnendur keppnisliðs Peugeot veltu því mjög fyrir sér hvort bíllinn skyldi vera með drifi á öllum hjólum eða ekki og varð niðurstaðan sú að hafa hann með drifi á tveimur hjólum. Röksemdirnar fyrir því voru nokkrar, en þær helstar að með því yrði auðveldara að hafa fjöðrunina slaglengri, hjólin stærri, auk þess sem bíllinn yrði einfaldari og léttari.

Og hjólin undir bílnum eru stór – hvorki meira né minna en tæpur metri í þvermál (94 sm). Þau þurfa að fleyta bílnum yfir sandauðnir, grjóturðir, kletta, klungur og upp og niður fjallshlíðar og skriður. Upphaflega stóð til að byggja keppnisbílinn á grunni jepplingsins 2008 en á endanum varð sá kostur ofaná að byggja nýjan bíl algerlega frá grunni, en þó svipaðan í útliti.