Peugeot og GM í nána samvinnu?

Xavier Bertrand atvinnumálaráðherra í frönsku ríkisstjórninni sagði  í útvarpsviðtali á Europe 1 útvarpsstöðinni í Frakklandi nýlega að viðræður stæðu yfir milli Peugeot/Citroen og General Motors um tæknisamvinnu eða jafnvel samruna. Væntanlegur samstarfssamningur milli aðila muni opna kínverska bílamarkaðinn fyrir Peugeot/Citroen, en GM hefur náð þar tryggri fótfestu. Það lítur því út fyrir að enn ein samvinnublokkin sé að myndast í bílaiðnaðinum, en þær þýða að raunverulegir framleiðendur bíla í heiminum verða stöðugt færri og stærri.

Bílamerkin Citroen, Peugeot og Renault hafa lengi verið stolt Frakka. Renault er ekki lengur alfranskt, heldur hluti risasamteypu sem rúmar auk Renault, Nissan (upphaflega í Japan), Fiat á Ítalíu og Chrysler í USA.

Viðmælendur hjá PSA (Peugeot/Citroen) segja við Automotive News að náin samvinna við GM sé af hinu góða fyrir báða aðila vegna þess að bæði Peugeot/Citroenbílar og Opel séu nánast algerlega háðir evrópska markaðinum og framleiðsla hvors um sig sé of lítil til að geta staðið sæmilega undir sér og skilað arði. Með tæknisamvinnu lækki ýmis kostnaður eins og við hönnun, þróun og framleiðslu ýmiss tæknibúnaðar, t.d. véla og gírkassa. Þá geti hún einnig opnað Peugeot og Citroen bílum leið inn á Bandaríkjamarkað að nýju. Þá verði fyrst raunveruleg von til þess að framleiðslan aukist og verði um leið hagkvæmari, eins og sé að gerast með Fiat/Lancia og Renault/Nissan eftir samrunann við Chrysler.