Pólitískur vilji og þor er það sem þarf

The image “http://www.fib.is/myndir/FIA%20Foundation-logo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Á þriðju hverri mínútu deyr barn í umferðarslysi í heiminum, Á hverjum einasta degi deyja þrjú þúsund manns í umferðarslysum í heiminum sem mörg hver hefði mátt koma í veg fyrir.

Umferðarslys eru heimsfaraldur. Í Evrópu og Bandaríkjunum eru umferðarslysin stærsta dánarorsök ungs fólks. Á heimsvísu eru þau dánarvaldur á borð við þá skæðu sjúkdóma berkla og malaríu. Af sjúkdómum er það einungis eyðni sem slekkur líf fleira ungs fólks í heiminum en umferðarslysin ná að gera. Í ljósi þess hversu gríðarlegan faraldur er um að ræða gegnir það furðu hversu áhugi á umferðaröryggismálum hefur hingað til verið lítill meðal stjórnmálamanna, ráðamanna og fjölmiðla og hversu máttleysislegar allar varnaraðgerðir hafa verið. 

Heimsþing FIA– alþjóðasambands bifreiðaeigendafélaga um umferðarslysavána var haldið í Barcelona nýlega en af hálfu FÍB sóttu þingið Árni Sigfússon formaður FÍB, Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður og Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri félagsins. Á þinginu var formlega samþykkt að félögin innan FIA og samtök þeirra hrindi úr vör nýrri umferðaröryggisáætlun sem nær til alls heimsins. Áætlunin nefnist –Make Roads Safe eða -Gerum vegina örugga. Framkvæmdastjóri verkefnisins er Robertson lávarður af Port Ellen

http://www.fib.is/myndir/ArniogRonny.jpg

Í máli Robertson lávarðar og Max Mosley kom fram að afskiptaleysi stjórnmálaleiðtoga og fjölmiðla gagnvart þessum gríðarlega heimsfaraldri er óskiljanlegt og til að árangur náist þarf til að koma áhugi, vilji og pólitískt þor leiðtoga, stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks. Robertson lávarður sagði að umferðaröryggi og öruggari vegir hefðu hingað til varla verið á dagskrá enda þótt að umferðarslys og afleiðingar þeirra væru á heimsvísu í flokki með skæðum sjúkdómum eins og berklum og Malaríu. Umferðarslys og afleiðingar þeirra væru þvílík byrði á lág- og meðaltekjusamfélögum að þau nánast gerðu alla þróunaraðstoð og viðleitni til umbóta að engu. Vestræn hátekjusamfélög hefðu lært sína sáru lexíu og tekið mörg hver myndarlega á vandanum. Nú sé kominn tími til að yfirfæra þann lærdóm á lág- og meðaltekjusamfélögin svo þau verði fær um að setja eigin markmið um umferðarslysavarnir og að ná þeim og geta þannig gengið til móts við betri tíma. Að sætta sig við ástandið eins og einhverskonar sjálfsagðan fórnarkostnað og fylgifisk vélknúinnar umferðar væri fráleitt.

Max Mosley forseti FIA á hugmyndina að Make Roads Safe-verkefninu. Hann hefur í forsetatíð sinni lagt megináherslu á öryggismál tengd notkun bifreiða bæði í mótorsporti og almennri umferð og verið óþreytandi við að vekja athygli ráðamanna og fjölmiðla á vandanum og benda á leiðir út úr honum. Max Mosley átti á sínum tíma frumkvæði að lögleiðingu öryggisbeltanotkunar í bílum, EuroNCAP og EuroRAP verkefnunum. Fullyrða má að þetta starf Max Mosley hafi forðað hundruðum þúsunda manna frá örkumlun og ótímabærum dauða.

Í undirbúningi heimsverkefnisins Make Roads Safe hefur Max Mosley og samstarfsfólki hans tekist betur en nokkru sinni fyrr að vekja áhuga og athygli forystumanna um allan heim á umferðarslysavánni, því svonefndur G8 hópur iðnríkja, Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðabankinn eru orðnir virkir þátttakendurí því. Í stjórn þess sitja Robertson lávarður af Port Ellen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands og síðar framkvæmdastjóri NATO, Michael Schumacher sigursælasta kappaksturshetja allra tíma, Shigeo Watanabe stjórnarformaður Bridgestone í Japan o.fl. Þá hefur Kofi Annan aðalritari SÞ til skamms tíma lagt því til mikilvægt og einlægt liðsinni sitt.

Verkefnið Make Roads Safe  verður sýnilegt almenningi um heim allan vikuna 23.-29. apríl næskomandi í alþjóðlegri umferðaröryggisviku. Umferðaröryggismál verða aðalviðfangsefni allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York í októbermánuði nk. að frumkvæði Make Roads Safe. Þá hefur Alþjóðabankinn ákveðið að skilyrða lánveitingar til þróunarverkefna í samgöngumálum og til vegagerðar þannig að 10% lánsfjárhæðar verði ófrávíkjanlega varið til öryggisþátta veganna.

http://www.fib.is/myndir/Mosley-FIA.jpg
Max Mosley var í forsæti FIA fundarins í Bacelona á dögunum. Hann situr fyrir miðri mynd. Lengst til hægri er Hans van der Broek, fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands. Á myndinni að ofan eru þeir Árni Sigfússon fromaður FÍB og Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB.