Porsche skal ekki ná yfirráðum yfir Volkswagen

http://www.fib.is/myndir/VW-logo-.jpg
Porsche og Neðra-Saxland bítast hart um yfirráð yfir Volkswagen.

"Neðra-Saxland ætlar að halda ráðandi hlut sínum í Volkswagen, bæði í kauphöllinni og á aðalskrifstofunni í Wolfsburg. Við neitum að viðurkenna Porsche sem allsráðandi eiganda Volkswagen. Við munum beita neitunarvaldi ef með þarf til að stöðva yfirtöku Porsche,“ sagði Christian Wulff forsætisráðherra Neðra-Saxlands sl. sunnudag. Eins og fram hefur komið hér á fréttavefnum hefur Porsche verið markvisst að auka eignarhlut sinn í Volkswagen undanfarið og á orðið rúmlega 20% í fyrirtækinu og ráðamenn Porsche hafa lýst vilja til að auka hann í allt að 75 prósent.

Volkswagen var upphaflega stofnað snemma á valdatíma Nazista í Þýskalandi að frumkvæði sjálfs Adolfs Hitlers. Verkfræðingurinn og bílamaðurinn Ferdinant Porsche var fenginn til að hanna svonefndan KDF-bíl fyrir þýskan almenning, verksmiðja og heill verksmiðjubær var reistur í Neðra-Saxlandi og nefndur Wolfsburg og nýi KDF-bíllinn (Kraft durch Freude eða gleðikraftur) var kynntur með pomp og pragt.

En nokkrum mánuðum síðar braust heimsstyrjöldin út og verksmiðjan var tekin undir hergagnaframleiðslu þannig að lítið varð úr því að þýskur almenningur fengi sinn Fólksvagn.

Í stríðslok féll Wolfsburg í hendur Breta. Þá vantaði nauðsynlega farartæki fyrir herinn og fyrir það fólk sem vann að því að reisa héraðið og Þýskaland allt úr rústum stríðsins. Breski hershöfðinginn á svæðinu lét því setja saman fáeina Volkswagen bíla, m.a. til að nota við póstdreifingu. Bíllinn þótti reynast afskaplega vel. Eftirspurnin jókst hratt og framleiðslan vatt upp á sig og verksmiðjan var gerð að hlutafélagi og falin í umsjá hins nýja sambandsríkis Neðra-Saxlands sem var stærsti hluthafinn. Sérstök lög voru sett um verksmiðjuna en samkvæmt þeim hefur Neðra-Saxland ennþá neitunarvald í öllum málum sem varða líf og framtíð Volkswagen. Eignarhlutur ríkisins í fyrirtækinu er nú um 20%.

Þetta neitunarvald hyggst sambandsríkið nú nota til að koma í veg fyrir yfirtöku Porsche og er yfirlýsing forsætisráðherrans sl. sunnudag því stríðsyfirlýsing.  Porsche vantar sáralítið uppá til að verða ráðandi aðili í stjórn Volkswagen og þar með yfir fyrirtækinu sjálfu. Einungis neitunarvaldið fyrrnefnda stendur í vegi fyrir því.

Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að þessi sérstöku Volkswagen-lög og neitunarvald sambandsríkisins séu á skjön við hlutafélagalög. Þýska alríkisstjórnin hefur hins vegar neitað að staðfesta og viðurkenna dóminn. Dómstóllinn er nú með þetta sérstæða mál aftur til umfjöllunar sem og afstöðu alríkisstjórnarinnar. Fari svo að hún verði tilneydd að endurskoða afstöðu sína segist Christian Wulff að Neðra-Saxland muni snarlega auka eignarhlut sinn í 25 prósent.