PSA (Peugeot Citroen) við það að eignast Opel

Margt bendir til þess að Opel vörumerkið þýska (og Vauxhall í Bretlandi verði senn úr sögunni. Viðræður milli General Motors, eiganda Opel og PSA Group (Peugeot Citroen í Frakklandi) hafa staðið yfir talsvert lengi og líklegt er talið að kaupsamningar verði undirritaðir 9. mars nk.

PSA hefur átt viðræður við stjórnvöld í Þýskalandi um hvort og í hve miklum mæli PSA hyggst reka Opel verksmiðjurnar áfram. Samkvæmt frétt hins þýska Bild am Sonntag hyggst PSA halda rekstri allra þriggja Opel verksmiðjanna í Þýskalandi áfram. Til beggja vona geti þó brugðið með verksmiðjurnar í Póllandi, á Spáni og Bretlandi því að afkastageta evrópskrar bílaframleiðslu er þegar langt umfram eftirspurn.

Olivier Bourges, hátt settur hjá PSA, segir við Bild am Sonntag að hann hafi rætt við tvo aðstoðarráðherra og náinn ráðgjafa Angelu Merkel kanslara Þýskalands og tjáð þeim öllum að ætlunin væri að reka Opel framleiðsluna áfram í óbreyttri mynd og þá sem sjálfstæða grein innan PSA samsteypunnar. Ekki standi til að loka neinum framleiðslueiningum þar.

Meiri óvissa er hins vegar um afdrif tveggja Vauxhall verksmiðja í Bretlandi. Líklegt þykir að þeim verði báðum lokað og er ástæðan ekki sís BREXIT málið eða útganga Bretlands úr Evrópusambandinu. Það mun væntanlega skýrast frekar að loknum fundi forstjóra PSA og Theresu May forsætisráðherra Bretlands.

Starfsmenn Opel í Evrópu eru nú samtals 38 þúsund manns. Um helmingur þess fjölda eru í Þýskalandi. 4.500 starfa hjá Vauxhall í Bretlandi og afgangurinn í verksmiðjum Opel á Spáni og í Póllandi.