PSA- Peugeot/Citroen ætlar að byggja bíla í Rússlandi

http://www.fib.is/myndir/PSA-bill.jpg
Úr franskri samsetningarverksmiðju PSA.

Með batnandi almennum efnahag í Rússlandi hefur bílasala aukist þar jafnt og þétt eins og greint hefur verið frá hér í FÍB-fréttum. Stöðugt berast fregnir af áætlunum bílaframleiðenda um framleiðslu í Rússlandi til að mæta vaxandi eftirspurn eftir bílum og þær nýjustu eru þær að PSA (Peugeot/Citroen í Frakklandi) hyggst framleiða bíla í Rússlandi.

Ekki hefur verið látið uppi um hvar í Rússlandi þessi verksmiðja verður, hvort ný verksmmiðja verði reist frá grunni eða keypt verði ein þeirra gömlu sovésku bílaverksmiðja sem flestar eru annaðhvort eru ekki starfræktar lengur eða reknar á lágmarksafköstum. Samkvæmt upplýsingum frá höfuðstöðvum Peugeot í París verður það ákveðið á allra næstu dögum.

Frakkarnir segjast hinsvegar ætla að fjárfesta á hinum ört vaxandi rússneska bílamarkaði fyrir minnst 7,5 milljarða evra, en rússneski bílamarkaðurinn er sá sem örast vex um þessar mundir.

General Motors, Nissan, Toyota, VW að Skoda meðtöldum hafa nýlega tlkynnt um að til standi að reisa nýjar bílaverksmiðjur í Rússlandi. Ennfremur hafa kínverskar bílaverksmiðjur gert framleiðslusamninga við innlendar verksmiðjur um framleiðslu bíla og bílhluta.