„Pústbílar“ VW innkallaðir í Danmörku

90 þúsund dísilfólksbílar VW samsteypunnar, þar af 50 þúsund VW bílar, verða innkallaðir í Danmörku til lagfæringa á útblæstri þeirra. Vinnu- og tímaáætlun hefur verið kynnt en áður en innkallanirnar geta hafist verða yfirvöld að meta áætlanirnar og hvort þær séu fullnægjandi.

Yfirstjórn Volkswagen í Wolfsburg hefur látið setja upp áætlun um hvenær og hvernig þeir dísilbílar verða lagfærðir sem voru þannig útbúnir frá framleiðanda að frá þeim stafar of mikilli mengun - nema þegar þeir eru mengunarmældir. Það er síðan undir yfirvöldum komið í hverju landi um sig hvort þau samþykkja áætlanir Volkswagen og telja þær fullnægjandi eða ekki og hvenær lagfæringarnar geta hafist. Í Danmörku er það í höndum þeirrar stofnunar sem hefur með höndum yfirstjórn skipulags- og umferðarmála og gerðarviðurkenningu og skráningu bíla. Á Íslandi er það því væntanlega Samgöngustofa sem gefur grænt ljós á innkallanaáætlanir VW hér á landi.

Í þýskalandi er það samgöngustofa landsins, Kraftfafhrt-Bundesamt, sem hefur úrslitavaldið og þaðan hefur Danska Ritzau fréttastofan fengið afrit af áætlun VW og borið innihald hennar undir upplýsingafulltrúa Volkswagen í Danmörku; Søs Righolt. Hún segir að miðað sé við að innkallanirnar hefjist í 9. viku ársins (sem hefst á hlaupársdeginum þann 29. febrúar). Í fyrstu innköllunarlotu eigi að kalla inn bíla með tveggja lítra dísilvélum. Í 22. viku (30. maí) komi röðin að bílum með 1,2 lítra vélum, í  39. viku (26. sept.) komi loks röðin að bílum með 1,6 l vélar. Viðgerðin felist fyrst og fremst í uppfærslu á stjórntölvum dísilvélanna en í bílana með 1,6 l vélunum þurfi auk þess að breyta loftinntaki.

„Það er ljóst að þegar svona margir bíla þurfa að komast á verkstæði er mikilvægt að vinna eftir raunhæfri tímaáætlun. Við getum ekki staðið frammi fyrir 50 þúsund óánægðum bílaeigendum í níundu viku, öllum í einu,“ segir Søs Righolt við Ritzau.
Aðspurð um hvort það teljist ekki óþægilega langur biðtími fyrir þá Volkswageneigendur sem komast ekki að með bíla sína í viðgerð fyrr en í september segir Søs Righolt: „Ef staðan væri sú að ekki mætti nota bílana væri þetta óþægilega langur tími. En raunveruleikinn er sá að bílarnir eru í ágætu lagi,“ sagði hún.

Alls nær pústsvindlmálið, sem erlendis er oft nefnt Dieselgate (vísan í Watergate-hneykslið hjá Nixon Bandaríkjaforseta), til 11 milljón bíla. Rúmlega átta milljónir bílanna eru í umferð í Evrópu.

Upp komst um svindlið í Bandaríkjunum í september sl. og þá viðurkenndu stjórnendur VW samsteypunnar að hafa forritað tölvur bílanna þannig að þær gætu greint hvort bílarnir væru í raunverulegum akstri eða í akstri á keflum inni á verkstæði. Ef hið síðarnefnda var raunin, kveikti tölvan á mengunarhreinsibúnaði bílanna sem annars var óvirkur.