Rafbílaframleiðandi á hausinn

Coda Automotive, sem er framleiðandi rafbíla í Bandaríkjunum, er gjaldþrota. Coda er þriðji rafbílaframleiðandinn sem fer á hausinn á innan við einu ári í Bandaríkjunum.

Sala á bílnum brást og samkvæmt frétt á vefsíðunni Auto Zone voru meginástæður þær að rafhlöðurnar, sem framleiddar voru í Kína, voru ekki nógu góðar og sjálfur bíllinn, sem líka var kínverskur, of dýr. Auk þess voru hleðslustöðvar mjög af skornum skammti sem rýrði mjög notagildi bílsins, sérstaklega fyrir þá sem vildu nota bílinn til lengri ferðalaga en um heimaborgina.

Coda tók til starfa árið 2009 í bænum Benicia í Norður-Kaliforníu. Rafhlöðurnar komu frá Kína og sömuleiðis bíllinn, sem kom þaðan ósamsettur. Coda bíllinn var fimm manna fjögurra dyra fólksbíll og komst allt að 125 mílur eða 200 kílómetra á hverri rafhleðslu.

Upphaflegar söluáætlanir gerðu ráð fyrir því að 10-14 þúsund bílar seldust á fyrstu 12 mánuðum framleiðslunnar. Það fór á annan og verri veg því að einungis seldust um 100 bílar alls.