Rafbílarnir neðarlega á óskalistanum

Rafbílar, hvort heldur þeir eru með rafgeymum eða efnarafalli sem umbreytir vetni í rafstraum eru ekki ofarlega á óskalista venjulegra bifreiðaeigenda í Evrópu enda þótt áhugi fyrir slíkum bílum sé vissulega til staðar. Þetta kemur fram í hverri könnuninni af annarri m.a. í lauslegri könnun sem FÍB hefur gert meðal félagsmanna.

Samkvæmt okkar óformlegu könnun gátu um 18 prósent aðspurðra hugsað sér að fá sér rafbíl að því gefnu að verðið væri svipað og á venjulegum bílum af sambærilegri stærð. Þá þyrfti drægi þeirra að vera minnst 200 kílómetrar, hleðslutími mætti ekki vera of langur og hraðhleðslustöðvar þyrftu að vera aðgengilegar víðar en nú.

FDM, systurfélag FÍB í Danmörku hefur spurt sína félagsmenn hins sama og svörin eru áþekk og svör félagsmanna FÍB. 15 prósent þeirra 1200 sem svöruðu töldu líklegt að þeir fengju sér rafbíl eða vetnisrafbíl  einhverntíman á næstu fimm árum. En 85 prósent svarenda töldu rétt að bíða þar til tæknin batnaði og helstu þröskuldarnir í vegi þessara bíla lækkuðu enn frekar en orðið er. Það yrði varla fyrr en í fyrsta lagi eftir sex ár. Þá myndu þeir hugsa málið upp á nýtt.   

Ein spurningin í þessari könnun FDM var: -Hvenær býstu við að þú kaupir þinn fyrsta rafbíl eða vetnisrafbíl? Svörin voru eftirfarandi:

Á þegar slíkan bíl          2%
Innan næstu 2ja ára      4%
Innan næstu 3-5 ára     11%
Innan næstu 6-10 ára   22%
Í fyrsta lagi eftir 10 ár  34%
Aldrei                            27%