Rafbílasamlagið Autolib í París

Bílasamnýtingarfyrirtækið Autolib í París er eitt hið stærsta og öflugasta sinnar tegundar í heimi. Allir bílarnir í bílaflota Autolib eru litlir rafknúnir fólksbílar mattir og grábláir að lit og allir sömu tegundar– Bollore. En nú hefur verið bætt við flotann samskonar bílum án aftursætis sem þar með eru sendibílar sem henta iðnaðarmönnum vel til að skjótast í smáverkefni í t.d. heimahúsum hingað og þangað um borgina. Sendibílarnir er ekki grábláir heldur skærrauðir.

http://fib.is/myndir/Bollore-sendib.jpg  
Utilib, rafknúinn smá-sendibíll.
 

Autolib tók til starfa í París fyrir um þremur árum. Síðan þá hefur starfsemin vaxið mjög hratt og bílarnir orðnir áberandi í götumyndinni enda nú yfir tvö þúsund talsins og hægt að leigja þá á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Félagar í bílasamlaginu eru orðnir 190 þúsund talsins og bílarnir fara í 10-15 þúsund skottúra á dag, alla daga vikunnar. Bílana er að finna á sérstökum stæðum um alla Parísarborg þar sem hægt er að ganga að þeim.

Til að fá aðgang að þessu bílasamlagi þarf fyrst að gerast félagi í því. Það er gert með því að leggja fram ökuskírteini, mynd og greiðslukort. Eftir að árlegt áskriftargjald hefur verið greitt er gefið út sérstakt aðgangskort. Öll þjónusta Autolib fer eftir það fram um Netið og í gegnum kortalesara Autolib. Meðlimir finna í snjallsímum sínum hvar bílar eru staðsettir og ganga síðan að þeim þar, en geta síðan skilað þeim á sama stað eða á hvaða annað Autolib stæði sem vera skal og notkunarleigan er gjaldfærð sjálfvirkt af greiðslukorti félagsmannsins þegar bílnum hefur verið skilað.

Stofnandi Autolib er franskur auðmaður, Vincent Bolloré að nafni. Bílarnir sem bera nafn hans eru flestir byggðir í hans eigin verksmiðjum í Frakklandi og á Ítalíu. Þeir þykja bæði snotrir í útliti og þægilegir í akstri, enda eru þeir hannaðir af Pininfarina á Ítalíu.

Þessi viðskiptahugmynd Vincents Bolloré hefur greinilega gengið vel upp því að frönsk yfirvöld vilja nú að hann útfæri hugmyndina enn frekar svo hún nái til alls landsins. Það þýðir að bílastæðum fjölgar mjög mikið og hleðsluinnstungum fjölgar úr núverandi 14 þúsundum í sjö milljónir fram til ársins 2030. Ennfremur á Bolloré í viðræðum við borgarstjórn London um að setja þar upp Autolib þjónustu eins og í París.

Autolib þýðir eiginlega bílfrelsi. En með sendibílunum litlu rauðu er hugmyndin sú að þjóna einstaklingum og smáfyrirtækjum eins og handverksmönnum og smáverslunum. Því hafa þeir fengið nafnið Utilib, eða nytjafrelsi. Enn sem komið er eru rauðu sendibílarnir einungis fáeinir tugir og er aðventan nú einskonar reynslutími. Flest bendir hins vegar til að þeim fjölgi verulega enda er eftirspurnin veruleg nú þegar.