Rafbíll á 2.200 kr. á dag í Köben

Bílaleigan Sixt í Kaupmannahöfn er þessar vikurnar með sértilboð í Kaupmannahöfn. Í því felst að rafbílar af gerðinni Citroen C1 EV eru boðnir til leigu og kostar dagurinn einungis 99 kr. danskar á dag eða um 2.200 ísl. kr. Tilboðið nær einungis til Kaupmannahafnar og aðeins er hægt að taka bílana á leigu í gegn um sérstaka heimasíðu.

Forstjóri Sixt segir í samtali við Jyllands Posten að eðlilegt verð sé 366 danskar krónur á dag eða rúmar 8.000 ísl. kr. en í raun er þetta leigutilboð einskonar kynning rafbílafyrirtækis, sem heitir ChooseEV, á rafbílum. Tilboðið gildir fram eftir vorinu en mun hækka þegar fram í sækir en það mun að sögn framkvæmdastjóra Sixt við Jyllands Posten mest ráðast af framboði og eftirspurn.

Drægi bílanna er 80-100 km og sem dæmi um hversu hagkvæmt tilboðið er í raun og veru er að bílastæði fyrir venjulegan fólksbíl í hálfan dag í miðborg Kaupmannahafnar kostar í kring um 100 dkr.  Ekkert þarf hins vegar að greiða fyrir bílastæði fyrir rafbíla í eigu Kaupmannahafnarborgar. Rafmagnstengla er víða að finna á bílastæðum í miðborg Kaupmannahafnar og víðar þar sem hægt er að hlaða rafbílana, auk þess sem stinga má þeim í samband við venjulega innstungu þar sem hún er tiltæk.

„Við erum viss um að tekið verður vel á móti þessu tilboði. Rafbíllinn skapar leigutökum hreyfanleika á verði sem hvorki leigubílar né almannasamgöngur geta boðið upp á. Bílarnir eru fjögurra manna og það þýðir að  fjórir geta skroppið úr miðborginni norður á Bellevue baðströndina fyrir nokkurnveginn sömu upphæð og lestarmiðinn fram og til baka fyrir einn kostar. Það er með öðrum orðum mjög hagstætt að leigja rafbílinn og í kaupbæti eru öll gjaldskyld bílastæði í borginni ókeypis fyrir rafbílinn. Í ofanálag gefst leigutökum kostur á að kynnast kostum rafbílsins af eigin raun,“ segir framkvæmdastjórinn.