Rafbíllinn I-Pace fær enn eina viðurkenninguna

Heimsbíll ársins, rafbíllinn I-Pace frá Jaguar, heldur áfram að fá viðurkenningar en bíllinn hefur vakið verðskulduga athygli. Nýlega bættist enn ein viðurkenningin við þegar bíllinn hlaut þrenn helstu verðlaun tímaritsins Engine Technology International magazine þegar hann hlaut verðlaunin „Drifrás ársins 2019“, „Besti nýi rafmótorinn“ og „Besta vélin í flokki 350 til 450 hestafla“ á verðlaunahátíðinni „The International Engine + Powertrain of the Year Awards“ sem fram fór í Stuttgart.

Í dómnefnd verðlaunanna, sem kynnt voru á sýninginni Engin Expo + The Powertrain Technology Show, sátu 70 bílablaðamenn frá 31 landi þar sem tekið var tillit til helstu sérkenna í hönnun vélar og drifrásar, svo sem frammistöðu, afkasta, orkunýtni og nákvæmni. Titlarnir þrír sem I-Pace hlaut á sýningunni endurspegla framúrskarandi hátækni vélarinnar sem framleiðir engar gróðurhúsalofttegundir.

I-Pace er fjórhjóladrifinn fimm manna sportjeppi með tvo rafmótora, einum við hvorn ás, og 90kW rafhlöðu sem unnt er að hlaða frá 0-80% á innan við 45 mínútum. Bíllinn er um 400 hestöfl og skila mótorarnir 696Nm togi. Er I-Pace einungis 4,5 sekúndur að ná 100 km hraða frá kyrrstöðu en 90% orku rafmótoranna skila sér beint út til hjóla; 50%-60% betur en orka bensín- eða dísilvéla. Mesta vegalengd sem unnt er að aka I-Pace á rafhlöðunni er um 470 km samkvæmt nýja mælistaðlinum WLTP og er bíllinn því einstaklega hagkvæmur til daglegra nota hvort sem er í bæjum, borgum eða dreifbýlum sveitum þar sem aðgangur er að hleðslu.

Sem dæmi um tækni I-Pace má nefna að þegar I-Pace er stungið í samband við hleðslustöð fer ákveðið kerfi í gang sem stillir hita rafhlöðunnar á rétt stig til að hámarka mögulegt orkumagn inn á rafhlöðuna og þar með þá vegalengd sem framundan er. Einnig er varmadæla í I-PAce sem fangar orku úr andrúmsloftinu utan bílsins sem nýtt er í miðstöðvarkerfi bílsins til að spara orku af rafhlöðunni. I-Pace getur jafnvel nýtt varma af drifrás bílsins og beint varmanum til miðstöðvarinnar þar sem hún nýtist til hitunar.