Rafgeymunum í Chevrolet Volt breytt

Rannsókn á hvað olli bruna í rafgeymum í Chevrolet Volt bíl viku eftir að bíllinn var árekstursprófaður er lokið og General Motors hefur tilkynnt hvaða breytingar verði gerðar á rafgeymunumog bílunum sjálfum svo sagan geti ekki endurtekið sig. Þeir bílar sem þegar eru seldir hafa nú verið innkallaðir og verður gert við þá eigendum að kostnaðarlausu.

Í tilkynningu sem GM sendi frá sér sl fimmtudag segir að meðal þess sem gert verði sé að styrkja þá geymslustaði í bílunum sem hafa að geyma rafhlöður þannig að þær verði betur varðar ef slæmt slys á sér stað. Þá verði settir skynjarar í rafhlöðurnar sem fylgjast með því hversu mikið af kælivökva er á rafhlöðunum. Hlutverk kælivökvans er að halda réttum hita á rafhlöðunum og hindra ofhitun. Ennfremur verður settur sérstakur öryggisloki á rafhlöðusamstæðuna sem kemur í veg fyrir að hægt sá að yfirfylla þær með kælivökva.

Bruninn sem varð í flaki Volt-bíls viku eftir áreksturspróf hjá bandarísku umferðaröryggisstofnuninni NHTSA fékk mikla umfjöllun í bandarískum fjölmiðlum. NHTSA rannsakaði brunann sérstaklega í kjölfarið og brunahættu dögum eða jafnvel vikum eftir árekstur eða ákomu. Þessi atriði voru rannsökuð og metin, ekki bara í líþíumrafhlöðum í Volt bílum heldur í rafbílum almennt. Því má búast við að aðrir framleiðendur rafbíla geri ekki ósvipaðar endurbætur.

Í tilkynningu frá GM segir ennfremur að allar endurbætur sem gerðar verði á Volt bílunum verði eigendum að kostnaðarlausu og að endurbætur nýrra Volt bíla framvegis muni ekki valda verðhækkunum.