Raforka að ofan

Sólarsellur á þökum bíla, einkum rafbíla, eru svosem ekki nýjabrum lengur. Sólarsellurnar vinna rafmagn úr geislum sólarinnar og hjálpa til við að lengja drægi rafbílsins, ekki síst með því að nýta sólarorkuna til að kæla innirými bílsins í heitri sólinni í Kaliforníu og á öðrum sólríkum og heitum svæðum. Nú hefur BMW látið hanna bílskýli með svo mörgum og afkastamiklum sólarsellum að nægja eiga til að halda rafbílnum nothæfum til daglegs brúks.

Það er bandaríska hönnunarstofan Designworks USA í Bandaríkjunum sem stendur að þessu en fyrirtækið er í eigu BMW. Bílskýlið og allt efnið í það er framleitt samkvæmt heimspeki og ítrustu hugmyndum um sjálfbærni eins og reyndar rafbílarnir i3 og i8 frá BMW þannig að framleiðsla bæði bíls og bílskýlis er hugsuð sem ein heild. Í þessum sjálfbærnisanda er uppistaðan í burðarvirki bílskýlisins bambus, en koltrefjaefni í burðarvirki bílanna er framleitt í Kanada með sjálfbærri orku frá fallvötnum og gólfmotturnar úr einhverskonar fljótsprottnu illgresi.

En sólarsellurnar á þaki bílskýlisins eru að meginhluta úr lagskiptu gleri. Framleiðsla þeirra og eyðing hefur lítil skaðleg umhverfisáhrif í för með sér og framleiðsluábyrgðin er 30 ár, sem víst er nokkru lengri en áætlaður líf-/afskriftatími Kárahnjúkavirkjunar. Ekki vitum við um áætluð hleðsluafköst þessa BMW bílskýlis, sem eflaust er háð sólskini og skýjafari, en í frétt um það segir að við bílskýlið góða megi tengja hraðhleðslustöð BMW; Wallbox Pro og sé bílskýlið tengt við húsastrauminn og þar með raforkudreifinetið, megi gera ráð fyrir því að jöfunarreikningurinn við rafveituna verði almennt jákvæður eða neikvæður. Það hlýtur þó að fara verulega eftir sól- og skýjafari sem og notkun bílsins.