Rafskutlur í franskri borg

Í október nk. hefst tilraunaverkefni í franska skíða- og háskólabænum Grenoble. Verkefnið verður í gangi í þrjú ár en inntak þess er að athuga hvernig það muni reynast að hafa tiltæk handa almenningi lítil rafknúin farartæki á helstu stoppistöðvum strætisvagna og lesta til að skjótast á inn í miðbæinn og reka þar sín erindi. Þetta verður ekki ósvipað fyrirkomulag og á borgarreiðhjólum í fjölmörgum evrópskum borgum sem fólk getur gripið til á einum stað en skilið eftir á öðrum.

Rafmagnsfarartækin, sem verða frá Toyota, eiga að verða valkostur fyrir þá sem leið eiga inn í og um miðbæinn án þess að vera fótgangandi eða á reiðhjóli. Farartækin eiga að vera aðgengileg öllum sem á annað borð hafa ökuréttindi og koma þar í stað einkabílanna. Miðbæjarkjarni Grenoble verður lýst útblásturslaust svæði og meginhluti miðborgarsvæðisins auk þess skilgreint sem nokkurskonar umhverfisverndarsvæði þar sem bílar sem gefa frá sér koltvísýring  sem er umfram tiltekið hámark, mega ekki aka innan.

Hver evrópska borgin á fætur annarri hefur lýst miðbæjarkjarna sína útblástursfría og auk þess skilgreint stærri svæði umhverfis miðbæjarkjarnana þar sem bílar sem gefa frá sér koltvísýring umfram tiltekið hámark, mega ekki aka að viðlögðum sektum. Bæði fer þessum verndarsvæðum fjölgandi og þau stækka þannig að möguleikum fólks til þess að skreppa inn í miðborgirnar á heimilisbílnum fækkar stöðugt. En til að tryggja hreyfanleika fólks og möguleika til að reka erindi sín og umsvif í borgunum er mjög til þess hugsað að koma upp einhverskonar mengunarlausum farartækjum sem fólk getur auðveldlega tekið á leigu og er verkefnið í Grenoble af þeim meiði.

Rafmagnsfarartækin frá Toyota eru sérhönnuð smáfarartæki, 70 talsins, sérstaklega ætluð til borgaraksturs. Þau eru af tveimur gerðum. Önnur gerðin nefnist  i-Road og hin Coms. Coms er eins manns farartæki á fjórum hjólum með litlu farangursrými. i-Road er hins vegar tveggja manna, á þremur hjólum og hallar sér inn í beygjur eins og sjá má hér. Báðar gerðirnar eru rafknúnar og verða settir upp 30 stöðu- og hleðslustaðir sérstaklega fyrir verkefnið. Hugmyndin er sú að fólk taki lest eða strætisvagn til þeirrar samgöngumiðstöðvar sem best hentar. Panta má rafskutluna um snjallsímann og ganga síðan að henni þegar komið er á stoppistöðina og aka síðan á henni inn í miðbæinn og um hann eins og hún sé manns eigin og skila henni síðan að notkun lokinni á samgöngumiðstöðinn, annaðhvort þeirri sömu eða þá annarri, ef svo ber undir. Þeir sem aka munu um borgina á Toyota rafskutlunum munu vart þurfa að kvíða sérstökum bílastæðavanda því að skutlurnar eru ekki stærri en svo að kom má einum fjórum fyrir á bílastæði fyrir einn venjulegan fólksbíl.

Grenoble er ekki nein stórborg og hæst reis frægðarsól borgarinnar þegar vetrarólympíuleikar voru haldnir þar á ofanverðri síðustu öld. Íbúar eru 160 þúsund talsins og eru 60 þúsund þeirra háskólanemar.