Rafvæddir vegir frá 2030

Sænska þingið hefur sett Svíum það markmið að stórminnka jarðefnaeldsneytisbruna í landsamgöngum næstu 15 árin, svo mjög að neðar verði ekki komist. Þessu markmiði á að ná til og með árinu 2030. Mjög víðtækar rannsóknir og tilraunir eru þegar hafnar hjá sænskum stofnunum eins og vegtæknistofnuninni VTI og er tilgangur þeirra að finna fljótvirkustu og hagkvæmustu aðferðirnar við að útrýma að mestu olíunni og bensíninu sem orkugjafa fyrir bílana. VTI hefur í þessum tilgangi sett af stað mikinn hermi (Simulator) til að prófa virkni rafmagnsvega. Það eru vegir sem eru lagðir rafleiðslum en í þær sækja farartækin raforkuna sem knýr þau áfram.

Í herminum eru aðallega þrenns konar orkumiðlunarkerfi prófuð: Í fyrsta lagi loftlínur, í öðru lagi raflínur í vegyfirborði og í þriðja lagi segulsvið í veginum (Inductive Transfer) sem flytur raforku til bílanna snertingarlaust. Hver þessara orkumiðlunaraðferða hefur sína kosti og sína galla, afköstin eru misgóð, rekstraröryggið er misjafnt. Þá bætast við atriði eins og hætta og umhverfisþættir eins og t.d. sjónmengun. Allt er þetta hægt að forrita í herminn og prófa síðan og sannreyna hvernig virkar við mismunandi aðstæður, árstíðir o.s.frv. Frá þessu er greint í nýjasta fréttabréfi samtaka norrænna vegagerða.

Að söðla um og breyta vegum í rafvædda vegi er gríðarlega mikið og flókið mál. Verkefnisstjóri sænska rafvegahermisins segir herminn vera frábært tæki til þess að prófa tækni og aðstæður sem ennþá fyrirfinnast ekki, og fá raunsannar upplýsingar og samanburð á því hversu öruggar, hagkvæmar og skynsamlegar þær munu verða. En áður en farið verði út í jafn róttæka umbyltingu eins og þá að rafvæða vegina, verði að finna bestu lausnirnar og eins verði að kynna niðurstöðurnar rækilega fyrir notendum veganna, hvernig þær muni virka fyrir þá, hvernig notendagjöldin verði innheimt af rafbílunum o.s.frv.